Fjöregg MNÍ 2013 var afhent í 21. sinn á ráðstefnu Matvæladags Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands (MNÍ) sem haldinn var þann 16. október sl.
Fjöregg MNÍ er veitt fyrir lofsvert framtak á matvæla- og/eða næringarsviði. Fjöreggið, sem er íslenskt glerlistaverk, hannað og framleitt hjá Gleri í Bergvík, hefur frá upphafi verið veitt með stuðningi frá Samtökum iðnaðarins. Í ár bárust vel á annan tug tilnefninga til Fjöreggsins og var það niðurstaða dómnefndar að eftirtaldir fimm aðilar væru vel verðugir þess að hljóta Fjöreggið 2013.
- Friðheimar í Bláskógabyggð
- Laufey Steingrímsdóttir, næringarfræðingur
- Matarsmiðjur Matís
- Saltverk á Reykjanesi við Ísfjarðardjúp
- Verslunin Frú Lauga
Laufey Steingrímsdóttir hlaut Fjöregg MNÍ að þessu sinni.
Umsögn dómnefndar um Matarsmiðjur Matís
Matarsmiðjur Matís eru tilnefndar fyrir að aðstoða nýja matvælaframleiðslu í litlum skala. Í Matarsmiðjum Matís býðst einstaklingum, frumkvöðlum og litlum fyrirtækjum tækifæri til að stunda vöruþróun og hefja smáframleiðslu á matvælum gegn vægu leigugjaldi. Þannig spara þeir sér fjárfestingu í dýrum tækjabúnaði strax í upphafi rekstrar. Með þessu gefst einstakt tækifæri til að prófa sig áfram bæði við framleiðsluna og á markaði. Sérstök áhersla er á uppbyggingu í tengslum við staðbundin matvæli og matarferðaþjónustu.
Nánar um Matarsmiðjur Matís.