Fréttir

Matís fær styrk til að gefa út Síldverkunarhandbókina

Nú nýverið tók Páll Gunnar Pálsson, fyrir hönd Matís, við tveggja milljóna króna styrk frá Félagi síldarútgerða til ritunar Síldverkunarhandbókarinnar. Fjármagnið verður nýtt til að taka saman efni og meðal annars verður óútgefin „Síldarverkunarhandbók“ sem dr. Jónas Bjarnason, efnaverkfræðingur tók saman á síðasta áratug síðustu aldar, nýtt til verksins, sem og efni sem unnið var með fyrir allnokkrum árum um vinnslu og verkun síldar.

Verkun síldar hefur tekið miklum breytingum síðustu áratugina en það er engu að síður mikilvægt í dag að hafa gott aðgengi að því hvernig vinnslan þróaðist, hvaða vandamál voru til staðar og hvernig þau voru leyst áður fyrr.

Þekkingin sem mun birtast í þessari handbók um síldarverkun er mikilvæg í varðveislu kunnáttu fyrri ára og ekki síður mikilvægur liður í því að miðla til yngri kynslóða sem vilja leita í viskubrunn sögunnar til að útbúa eftirsóknarverðar afurðir fyrir nútíma neytendur. Þetta fræðsluefni mun styrkja þekkingu og efla kynningu á íslenskum sjávarútvegi og hvernig síldin var, er og getur verið unnin í framtíðinni.

Það er hvergi að finna slík skrif á íslensku um verkun og verkunarferla síldar. Það eru til ýmsar bækur um líffræði og ólíka stofna síldarinnar og svo er til mikið efni sem er meira og minna ýmsar sögulegar umfjallanir um afla, risavaxnar fjárfestingar, slark, gjaldþrot, hrun, áhrif síldarinnar á mannlíf og margt fleira. En þar er ekki að finna neina samantekt um verkunina út frá vísindalegu og faglegu sjónarhorni vinnslunnar og markaðarins.

 Það yrði því mikil synd ef ekki yrði ráðist í það verk að koma slíkum fróðleik sem og fróðleik dr. Jónasar Bjarnasonar á framfæri. Það er meira að segja svo að sagan segir að í Síldarhandbók Jónasar hafi falist svo mikil þekking að ýmsir „áhrifamenn“ í bransanum hefðu komið í veg fyrir birtingu hennar á sínum tíma og því hefði hún aldrei farið í prent.

Fyrir liggur nánast fullklárað efni sem þó er barn síns tíma og þarfnast töluverðrar endurritunar. Vinna þarf í myndasafni Jónasar til að finna þær myndir sem tilheyrðu þessu verkefni. Þær eru ekki á tölvutæku formi enn sem komið er og auk þess þarf að endurgera línurit og skýringarmyndir. Þannig að þó efnið virðist í fyrstu liggja nokkuð klárt fyrir þá þarf að fara vel yfir það allt saman og tengja við breytingar á vinnsluháttum og verkun síldar síðustu árin.

Síldverkunarhandbókina verður birt á stafrænu formi, eins og flest annað fræðsluefni Matís.

IS