Fréttir

Matís hjálpar til við að koma ferskum birkisafa úr Hallormsstaðarskógi á markað

Í Hallormsstaðarskógi er búið að safna tvöþúsund lítrum af safa úr birkitrjám. Safinn er drukkinn ferskur eða soðið úr honum síróp.

Á vorin meðan trén laufgast þurfa þau að flytja mikla næringu út í greinarnar. Í hverjum degi flytur fullvaxið birktré mörhundruð lítra af vatni upp úr jörðinni og á reyndar svolítið aflögu handa mannfólkinu. Í Hallormsstaðarskógi er einn stærsti birkiskógur landsins og hvergi er að finna eins mikið af stórum og öflugum björkum. Þetta er því tilvalinn staður til að safna birkisafa.

Bergrún Arna Þorsteinsdóttir hjá Holti og heiðum á Hallormsstað segir að þegar birkisafa er safnað þá sé borað gat í tréð og slanga tengd í gatið. Eitt tré hafi gefið allt upp í 8 lítra á sólarhring. ,,Við erum ekki að nýta tré nema í 4 eða 5 daga og þá lokum við því. Við erum ekki að nota sömu trén ár eftir ár. Við gefum þeim 2-5 ára frí áður en við förum að safna úr þeim aftur,” segir Bergrún. 

Safinn er talinn heilnæmur en í honum eru steinefni, andoxunarefni og sykrur. ,,Við sjóðum birkisíróp úr safanum og vinnum með MATÍS að því að koma honum ferskum á markað. Það eru 60 tré sem við erum með núna í dag undir. Og ætli við séum ekki að fá svona 200 lítra á sólarhring úr þessum trjám,” segir Bergrún.

Frétt þessi birtist á RÚV þann 3. júní sl. Hér má sjá myndskeiðið með fréttinni.

Í Matarsmiðjum Matís býðst frumkvöðlum og litlum fyrirtækjum tækifæri til að stunda vöruþróun og hefja smáframleiðslu á matvælum gegn vægu leigugjaldi. Þannig spara þeir sér fjárfestingu í dýrum tækjabúnaði strax í upphafi rekstrar. Með þessu gefst einstakt tækifæri til að prófa sig áfram bæði við framleiðsluna og á markaði. Sérstök áhersla er á uppbyggingu í tengslum við staðbundin matvæli  og matarferðaþjónustu. Nánari upplýsingar um Matarsmiðjur Matís má finna hér.

IS