Nýlega tók Matís í Neskaupstað í notkun fullkomið tæki til mælinga- og greiningar á fiskpróteinum. Tækið, sem er frá fyrirtækinu Elementar í Þýskalandi, er af gerðinni Fast N/Protein Analyzer rapid N cube.
Tækið byggir á s.k. Dumas aðferð, en mælingar skv. þeirri aðferð byggja á þurrbrennslu og mælingu á nitri í formi lofttegundar (N2). Aðferðin er margfalt hraðvirkari og umhverfisvænni heldur en Kjeldahl aðferðin sem mikið er notuð til mælinga á próteini í matvæla- og fóðursýnum.
Að sögn Þorsteins Ingvarssonar, stöðvarstjóra Matís í Neskaupstað, er tækið mjög hraðvirkt og nákvæmt og auðveldar því mjög mælingar á köfnunarefni og próteinum í fiskimjöli.
Starfstöð Matís í Neskaupstað annast einkum örveru- og efnamælingar fyrir fiskimjölsiðnaðinum á Austfjörðum, en þungamiðja fiskimjölsiðnaðar á Íslandi er á því svæði.
Á myndinni má sjá Karl Rúnar Róbertsson, sérfræðing hjá Matís í Neskaupstað við próteingreiningartækið.