Hjá Matís er unnið hörðum höndum við að aðstoða atvinnulífið og matvæla- og líftækniiðnaðinn með leiðandi nýjungum og nýsköpun. Lykilorðið er verðmætasköpun og er ávallt unnið með að leiðarljósi að skapa aukin verðmæti og fleiri störf á sjálfbæran hátt, samfélaginu öllu til hagsbóta.
Þær stofnanir sem runnu saman í Matís höfðu átt langt og farsælt samstarf við ýmsar menntastofnanir, opinbera aðila, fyrirtæki og einstaklinga, bæði hérlendis og erlendis. Matís heldur áfram að efla samskipti og samvinnu við þessa og aðra aðila sem vilja vinna með fyrirtækinu að því að gera hlut íslensks matvælaiðnaðar sem mestan.
Matís hefur unnið með fjölmörgum fyrirtækjum og rannsókna- og menntastofnunum að rannsóknum og þróun, og ekki er of djúpt í árina tekið þó fullyrt sé að staða íslensks matvælaiðnaðar væri önnur og lakari ef þeirra stofnana sem runnu inn í Matís hefði ekki notið við.
Með rannsóknum ætlar Matís að vinna að því að auka samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja í matvælaiðnaði og fiskvinnslu og leggja sitt af mörkum til að skapa þessari mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar áfram þann sess sem hún skipar í dag.