Matís opnaði líftæknismiðju á Sauðárkróki sl. þriðjudag, 18. nóvember. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra opnaði smiðjuna að viðstöddu fjölmenni.
Með tilkomu líftæknismiðjunnar skapast rannsóknaraðstaða með tilheyrandi vinnsluaðstöðu þar sem vísindamenn og frumkvöðlar í líftækna geta þróað vörur sínar og vinnsluferla í samvinnu við Matís. Það þarf ekki að koma á óvart að Matís opni þessa smiðju í Skagafirði enda er matarkista Skagfirðinga alþekkt en þar vex hún og dafnar í skjóli öflugs og fjölbreytilegs matvælaiðnaðar. Líftæknismiðjan er opin öllum landsmönnum og þar geta einstaklingar og fyrirtæki fengið aðstöðu til skemmri tíma til að framleiða afurðir. Smiðjan verður nokkurs konar klakstöð nýrra sprotafyrirtækja í líftækni og mjög mikilvæg í að stytta ferlið frá hugmynd til markaðar.
Á myndunum má m.a. sjá þegar Einar K. Guðfinnsson og Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís opna líftæknismiðjuna formlega ásamt Guðmundi Guðlaugssyni, sveitastjóra Skagafjarðar, Arnljóti Bjarka Bergssyni verkefnastjóra hjá Matís og Patriciu Hamaguchi frá Matís.