Fyrsta verkefni Matís í nýju Horizon 2020 rannsóknaáætluninni að hefjast. Matís er þátttakandi í nýju 2.7 milljón Evra verkefni sem er fjármagnað af Horizon 2020, nýju rannsókna- og nýsköpunaráætlun Evrópu.
Verkefnið, sem er til fjögurra ára, nefnist „Social Science Aspects of Fisheries for the 21st Century” (skammstafað: SAF21) og er evrópskt mennta-og rannsóknarnet (European Training Network, ETN) en slík verkefni eru partur af Marie Sklodowska Curie öndvegisrannsóknaáætlun Horizon 2020. Upphaf verkefnisins er áfangi fyrir Matís þar sem þetta er fyrsta verkefnið sem Matís tekur þátt í sem er fjármagnað innan Horizon 2020.
SAF21 er samstarfsnet átta stofnana eða fyrirtækja frá sex löndum sem mun fá til starfa tíu doktorsnema. Nemendurnir munu stunda rannsóknir sem tengjast félags- og vistfræðilegum viðfangsefnum fiskveiðistjórnunar. Þátttakendur tryggja gott samstarf og deila þekkingu í gegnum fjölmörg námskeið og málstofur á verkefnistímanum. Doktorsneminn hjá Matís mun rannsaka hvernig sjómenn aðlagast breytingum á stjórnun veiða og nýjum markaðskröfum með stuðningi hermilíkana. Hann mun hafa aðgang að öllum viðburðum (námskeiðum, málstofum, ráðstefnum og.fl.) innan samstarfsnetsins ásamt því að dvelja hluta af verkefnistímanum hjá öðrum SAF21 þátttakendum.
Verkefnisstjórn er í höndum dr. Melania Borit, Háskólanum í Tromsö (UiT) í Noregi. Aðrir þátttakendur, ásamt íslenskum þátttakendum frá Matís og Háskóla Íslands, eru frá Færeyjum, Bretlandi, Spáni og Hollandi.
Upphafsfundur verkefnisins var haldinn í Kaupmannahöfn föstudaginn 6. febrúar sl. og í kjölfarið mun Matís auglýsa eftir umsækjendum í doktorsnemastöðuna.
Nánari upplýsingar má nálgast hjá Sigríði Sigurðardóttur, sigridur.sigurdardottir@matis.is