Fréttir

Matís tekur þátt í evrópska samstarfsverkefninu EuroFIR

Tilgangurinn með EuroFIR (European Food Information Resource) er að bæta gögn um efnisinnihald matvæla. Verkefnið miðar að því að leita leiða til að miðla upplýsingunum með gagnagrunnum og á netinu.

Þannig styrkist samkeppnishæfni smárra og stórra matvælafyrirtækja í Evrópu. Nú er unnið að því að þróa staðla, gæðamatskerfi og skilgreiningar á fæðutegundum og samhæfa gagnagrunna. Starfið auðveldar Íslendingum að fá gögn frá öðrum Evrópulöndum, ekki síst með rafrænum hætti. Afar mikilvægt er að Íslendingar taki áfram þátt í starfinu þegar verkefninu lýkur en evrópskt félag tekur við hlutverki EuroFIR á næsta ári.

Fjöldi vörumerkja fyrir matvæli á Vesturlöndum skiptir nú tugum þúsunda. Oft þarf að leggja fram upplýsingar um næringargildi þessara vara og matvælaiðnaðurinn þarf að finna hagkvæmar leiðir til að láta þessar upplýsingar í té. Afrakstur EuroFIR verkefnisins leiðir til þess að iðnaðurinn fær áreiðanlegri gögn en áður og þau eru skilgreind með sama hætti í Evrópulöndum.

Á vegum Matís er nú unnið að því að endurskipuleggja ÍSGEM gagnagrunninn um efnainnihald matvæla til að uppfylla þær gæðakröfur sem hafa verið settar fram í EuroFIR verkefninu Gagnagrunnurinn hefur í rúmt ár verið aðgengilegur á vefsíðu Matís. Þar er að finna upplýsingar um næringarefni í fjölmörgum fæðutegundum. Á vefsíðu EuroFir er að finna upplýsingar fyrir matvælaiðnað um heilsufullyrðingar, staðla fyrir gögn og skýrslur.

EuroFir verkefninu lýkur á árinu 2009 og er þegar farið að vinna að því að evrópskt félag (non-profit organization) haldi áfram starfinu við að samhæfa gagnagrunna, uppfæra verklagsreglur og miðla þekkingu. Óskað hefur verið eftir því að þátttakendur í EuroFIR verkefninu haldi samstarfinu áfram innan hins nýja félags.

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Reykdal, olafur.reykdal@matis.is.

Grein þessi birtist nú síðast á bls. 5 í Íslenskum iðnaði, fréttabréfi Samtaka Iðnaðarins.

IS