Fréttir

Matís tekur þátt í menningarnótt

Á Menningarnótt þann 23. ágúst næst komandi mun Matís standa fyrir kynningu á nýjum matvælum sem gestum menningarnætur býðst að smakka. Nýjungarnar eru afrakstur nýsköpunar- og vöruþróunar verkefnisins „Nýsköpun í norræna lífhagkerfinu“.

Verkefnið er eitt af megin verkefnum „Nordbio“ sem er hluti af formennskuáætlun Íslands, en Ísland gegnir nú formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Verkefnið fjallar um nýsköpun í lífhagkerfinu þ.m.t. matvælaframleiðslu og framleiðslu á lífmassa með sjálfbærni að leiðarljósi. 

Fyrsti hluti verkefnisins fólst í að aðstoða matvælaframleiðendur við þróun á nýjum matvörum. Matís auglýsti í vor eftir hugmyndum að nýsköpun í matvælavinnslu á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum. Mikill áhugi skilaði sér í að tæplega 80 frumkvöðlar sóttu um aðstoð og fengu um 40 þeirra sérfræðiaðstoð m.a. frá Matís við vöruþróun. 

Á Menningarnótt gefst gestum og gangandi tækifæri til að smakka á framleiðslu tveggja íslenskra frumkvöðla og kynna sér norrænt samstarf, sem utanríkisráðuneytið sinnir:

Perlubygg (úrvalsbygg í fína matseld) frá Móðir Jörð á Vallanesi. Sveinn Kjartansson matreiðslumeistari ætlar að matbúa girnilegan rétt úr perlubygginu.

BE juicy (lífrænt vottað duft úr káli til safagerðar) hægt verður að smakka BE juicy boozt.  

 Kynningin verður haldin í utanríkisráðuneytinu, Rauðarárstíg 25, 4. hæð, milli klukkan 14:00 og 17:00.

Verkefnið „Nýsköpun í norræna lífhagkerfinu“, skilaði af sér 30 vörutegundum en verkefnið miðaði að því að  þróa nýjar matvörur eða matvælatengdar vörur í Grænalandi, Færeyjum og á Íslandi. Nýsköpunarverkefni af þessari gerð styrkja svæðisbundinn hagvöxt og auka sjálfbærni í matvælaframleiðslu. Upplýsingar um allar vörurnar má nálgast á vefsetri Nordtic.

IS