Fréttir

Matvæladagur MNÍ, 27. október 2010

Yfirskrift ráðstefnunnar í ár verður Eru upplýsingar um næringu og fæðubótarefni á villigötum?

Með þessari fréttatilkynningu vill undirbúningsnefnd Matvæladags MNÍ 2010, sem haldinn verður miðvikudaginn 27. október á Hilton Reykjavík Nordica Hóteli minna fjölmiðla og aðra er málið varðar á MNÍ daginn og hvetja til góðra skrifa og virks fréttaflutnings um það mikilvæga málefni sem verður til umfjöllunar.

Neysluvenjur íslensku þjóðarinnar í heild skipta okkur öll miklu máli með sín beinu áhrif á heilsu og ýmsa lífsstílstengda sjúkdóma. Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands (MNÍ, www.mni.is) vill leggja sitt af mörkum með því að helga árlega ráðstefnu félagsins, Matvæladag MNÍ, umfjöllun um næringu og fæðubótarefni. Mikilvægi réttrar miðlunar upplýsinga um næringu og fæðubótarefni og vísindalegs bakgrunns þeirra er megin inntak dagsins enda geta rangar upplýsingar um næringu haft skaðleg áhrif á heilsu fólks.

Yfirskrift ráðstefnunnar í ár verður „Eru upplýsingar um næringu og fæðubótarefni á villigötum?“

Á ráðstefnunni fjalla íslenskir sérfræðingar á faglegan hátt um ýmsar staðreyndir varðandi næringu og fæðubótarefni út frá gagnreyndri þekkingu. Fjallað verður um túlkun rannsókna, og hvers vegna stakar rannsóknir, sem jafnvel ganga gegn viðtekinni vísindalegri þekkingu, eiga oft greiðari aðgang að fjölmiðlum en aðrar rannsóknir. Einnig verður fjallað um hvernig upplýsingar til almennings geta verið villandi og leiði oft til misskilnings sem erfitt er að bera til baka. Fjallað verður um gildi ýmissa fæðubótarefna, náttúrulyfja og náttúruefna og hvort neysla þeirra sé í raun og veru heilsusamleg, hverjir eigi helst á hættu að verða fyrir heilsuskaða vegna neyslu fæðubótarefna og hvaða þjóðfélagshópar geti notið góðs af þeim. Einnig verður rætt um eftirlit með fæðubótarefnum, sterk áhrif fjölmiðla og markaðsafla, og um tengsl heilsu og heilsufullyrðinga.

MNÍ vonast til þess að Matvæladagurinn verði upplýsandi fyrir almenning,  heilbrigðisstarfsfólk sem og hvern þann sem kemur að ráðgjöf um mataræði, næringu og heilsu.

Fjöregg MNÍ 
Í tengslum við Matvæladaginn er Fjöregg MNÍ afhent. Fjöreggið er veglegur eignargripur, veittur fyrir lofsvert framtak á sviði matvælaframleiðslu og manneldis. Gripurinn er hannaður og smíðaður af Gleri í Bergvík og hefur frá árinu 1993 verið gefinn af Samtökum iðnaðarins.

Sú nýbreytni verður reynd í ár að einstaklingum sem unnið hafa rannsóknir á sviði næringar, náttúrulyfja, náttúruefna og fæðubótarefna er boðið að kynna niðurstöður sínar á veggspjöldum. Einnig er áhugasömum fyrirtækjum í matvæla-, fæðubótar-, náttúrulyfja- og náttúruefnageiranum boðið að kynna vörur sínar á kynningarbási í kaffihléum gegn vægu gjaldi.

Matvæladagur MNÍ hefur frá fyrstu tíð fengið góðar undirtektir frá aðilum sem starfa við manneldismál, kennslu- og fræðslumál, matvælaframleiðslu og matvælaeftirlit. Í ár væntum við þess að höfða til enn breiðari hóps vegna mikillar heilsuvakningar og áhuga almennings á ýmsum heilsuvörum og fæðubótarefnum. Dagskráin stendur frá kl. 12:00-17:30. Hér má sjá dagskránna.

SKRÁNING

Nánari upplýsingar veitir Fríða Rún Þórðardóttir, 898-8798, frida[at]lsh.is
– – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – –

Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands
Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands er fagfélag matvælafræðinga, næringarfræðinga, næringarráðgjafa og annarra stétta með háskólapróf í skyldum greinum. Markmið félagsins er m.a. að stuðla að þróun í matvælafyrirtækjum og efla samstarf við þau, stuðla að aukinni menntun og eflingu vísindalegra rannsókna á sviði matvæla- og næringarfræða, vinna að umbótum í manneldismálum þjóðarinnar og leitast við að hafa áhrif á löggjöf varðandi fagsvið félagsins. Heimasíða félagsins, www.mni.is, er uppfærð reglulega og þar er að finna atburðadagatal, fréttir og ýmsan fróðleik, m.a. greinar sem félagsmenn hafa skrifað í fjölmiðla og erindi frá ráðstefnum félagsins undanfarin ár. Einnig er gefið út tímaritið Matur er mannsins megin með ítarlegri umfjöllun um matvæli, næringu og efni Matvæladagsins ár hvert. Tímaritinu hefur verið dreift um allt land með Morgunblaðinu og mun svo einnig verða í ár.

Umfjöllunarefni fyrri Matvæladaga MNÍ

1993   Matvælaframleiðsla – Gæði  
1994   Matvælaiðnaður og manneldi  
1995   Menntun fyrir matvælaiðnað  
1996   Vöruþróun og verðmæta-sköpun  
1997   Matvæli á nýrri öld   
1998   Matur og umhverfi       
1999   Offita   
2000   Örugg matvæli       
2001   Matur og pólitík   2009   Íslensk matvælaframleiðsla og gjaldeyrissköpun
2002   Matvælaeftirlit
2003   Neysluþróun
2004   Rannsóknir
2005   Stóreldhús og mötuneyti
2006   Öflugur matvælaiðnaður í stöðugri framþróun
2007   Hverjir bera ábyrgð á og hafa áhrif á fæðuval og næringarástand þjóðarinnar?
2008   Íslenskar matarhefðir og héraðskrásir

IS