Þorvaldseyri – Staðbundin sjálfbærni / Verkefnið Korn á norðurslóð – Nýir markaðir, sem styrkt er af NPA (Northern Periphery and Arctic Programme) er nú í fullum gangi innan Matís.
Markmið verkefnisins eru að auka verðmæti afurða úr korni og stuðla þannig að auknum tekjum kornbænda og fyrirtækja, að stuðla að kornrækt þar sem hún er ekki stunduð nú og fjölga með því störfum í landbúnaði og að auka notkun á korni til framleiðslu á nýjum vörum.
Hluti af verkefninu snéri að Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum, einu afkastamesta kornræktarbýli landsins. Á Þorvaldseyri er rekið kúabú með áherslu á mjólkurframleiðslu en löng hefð er fyrir ræktun á byggi á býlinu og undanfarin ár hefur repja einnig verið ræktuð.
Þorvaldseyri komst í sviðsljósið eftir gosið í Eyjafjallajökli árið 2010, þegar flug lá niðri um alla Evrópu, tún og jarðir hurfu í ösku og búfénaður var í hættu. Eftir gosið var ljóst að askan hafði styrkjandi áhrif á ræktarlandið og gefið sóknarfæri í atvinnu- og nýsköpun með opnun Gestastofunnar og sölu á ýmsum varningi tengdu gosinu og matvæla til ferðamanna og neytenda.
Þorvaldseyri býður upp á mjög sérstakar aðstæður; býlið mun hafa sína eigin raforkuframleiðslu úr lítilli virkjun á landinu, borhola fyrir heitt vatn er á staðnum, fóður fyrir dýrin er að langmestu leyti framleitt á staðnum og allur áburður er fenginn frá mykju og hliðarafurðum. Repjuolían er seld neytendum en jafnframt notuð sem eldsneyti á tækin. Heimilishaldið getur verið sjálfbært að mestu leyti; afurðir býlisins nýtast sem matur jafnframt sem að grænmeti og ávextir eru ræktaðir fyrir eigin neyslu.
Í verkefninu er þetta kallað staðbundin sjálfbærni; þegar því markmiði er náð að verða sjálfum sér nægur um flest sem tengist orku og efni innan afmarkaðs svæðis. Ljóst er að erfitt getur reynst að ná fullri staðbundinni sjálfbærni í nútíma þjóðfélagi en engu að síður má byggja á þessu og skapa grundvöll fyrir aðra.
Útbúið var upplýsingaskema fyrir Þorvaldseyri sem lýsir þessari staðbundnu sjálfbærni og hvaða áhrif hún hefur í umhverfislegu og samfélagslegu tilliti. Notuð var aðferðafræði vistferilsgreiningar (e. Life Cycle Assessment) til útreikninga sem byggjast á gögnum frá býlinu. Samkvæmt þeim útreikningum getur sparnaður býlisins orðið um 19 milljónir króna á ári með því að nýta eigin raforku og heitt vatn, framleiða eigið fóður og áburð, nýta repjuolíu á vélar og framleiða eigin mat fyrir býlið. Jafnframt getur Þorvaldseyri sparað sem nemur um 18 tonnum af útblæstri gróðurhúsalofttegunda á ári.
Matvælaframleiðsla gengur á ósjálfbærar auðlindir jarðarinnar og skilar umtalsverðu magni af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið. Þar er landbúnaður ekki undanskilinn. Með því að tileinka sér sjálfbærni í hugsun og framkvæmd er til mikils að vinna, bæði fjárhagslega séð og umhverfislega séð.