Ráðstefna um matvælaframleiðslu verður haldin 6. nóvember nk. Sveinn Margeirsson forstjóri Matís situr í pallborði ásamt atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra
Hagmunaaðilar og fyrirtæki í matvælaframleiðslu hafa tekið höndum saman og boðað til ráðstefnu um Matvælalandið Ísland á Hótel Sögu þriðjudaginn 6. nóvembernæstkomandi. Spurt verður hvernig auka eigi verðmætasköpun og nýta þær matarauðlindir sem landið býr yfir. Að mati ráðstefnuhaldara eru fjölmörg tækifæri sem liggja í aukinni framleiðslu og sölu á íslenskum mat og tengdri þjónustu.
Hvernig framleiðum við meiri og betri mat?
Aðalfyrirlesari dagsins verður Daði Már Kristófersson, auðlindahagfræðingur, en hann fjallar um það hvernig þjóðin geti framleitt meiri og betri mat. Á eftir Daða Má verða örstutt erindi sem fjalla um viðfangsefnið frá ólíkum sjónarhornum. Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, mun ræða um aukna verðmætasköpun í sjávarútvegi og Finnbogi Magnússon, landbúnaðartæknifræðingur, rýnir í möguleika jarðræktarinnar. Þá mun Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna, tala um markaðssetningu og vörumerkjastjórnun í landbúnaði og Sigrún Elsa Smáradóttir hjá Matís fjalla um grósku í smáframleiðslu matvæla.
Hvernig á að metta milljón ferðamenn?
Eftir kaffihlé verður sjónum beint að ferðaþjónustunni og útflutningi á mat. Þar mun Guðný Steinsdóttir, markaðsstjóri MS, ríða á vaðið og segja frá markaðssetningu á skyri og ræða um Ísland sem vörumerki. Jón Baldur Þorbjörnsson hjá Ísafold Travel talar um matarmenningu og ferðaþjónustu og matreiðslumeistarinn Friðgeir Ingi Eiríksson leitast við að svara því hvernig metta eigi milljón ferðamenn í framtíðinni. Að lokum fjallar Guðný Steinsdóttir, markaðsstjóri hjá Íslandsstofu, um íslenska matarmenningu á alþjóðavettvangi.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra í umræðum
Eftir erindin verða pallborðsumræður þar sem sitja Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SAF, Jón Ásbergsson, forstjóri Íslandsstofu, Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, Sindri Sigurgeirsson, bóndi í Bakkakoti, og Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís. Ráðstefnustjóri er Svana Helen Björnsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins.
Þeir sem standa að ráðstefnunni koma úr ólíkum áttum en eiga það sameiginlegt að eiga mikið undir mat og matvælaframleiðslu. Í hópnum eru Bændasamtök Íslands, Íslandsstofa, Matís, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fiskvinnslustöðva, Samtök iðnaðarins og Þróunarvettvangur á sviði matvæla.
Allir velkomnir og aðgangur ókeypis
Ráðstefnan um Matvælalandið Ísland er öllum opin og aðgangur er ókeypis. Hún hefst kl. 12.30 þriðjudaginn 6. nóvember og er haldin í ráðstefnusalnum Kötlu á Hótel Sögu á 2. hæð. Áætluð ráðstefnulok eru kl. 16.00.
Þátttakendur eru vinsamlegast beðnir að skrá sig á vef Samtaka iðnaðarins, www.si.is.
Nánari upplýsingar um viðburðinn veitir Tjörvi Bjarnason, sviðsstjóri útgáfu- og kynningarsviðs BÍ, í síma 862-3412 eða netfangið tjorvi@bondi.is.