Í gær var alþjóðadegi matvælaöryggis fagnað í annað sinn. Matís er leiðandi í efna- og örverurannsóknum á matvælum á Íslandi. Styrkur fyrirtækisins liggur í breiðum grunni getu, þekkingar og innviða ásamt tengslum við iðnaðinn og landsbyggðina.
Rannsóknir Matís hafa verið yfirgripsmiklar þar sem nýjustu og bestu tækni sem völ er á hverju sinni hefur verið beitt í mismunandi og fjölbreyttum verkefnum. Til dæmis hefur áhersla verið lögð á rannsóknir á óæskilegum örverum í matvælum og vinnsluumhverfi og greiningaraðferðir þróaðar. Aukinn skilningur á eðli, uppruna og smitleiðum sjúkdómsvaldandi örvera er mikilvægur til að tryggja öryggi matvæla og koma í veg fyrir faraldra og efla öryggi neytenda. Miðlun þekkingar til almennings og vísindasamfélagsins með útgáfu kynningarefnis og skrifum í tímarit er mikilvægur liður í þeirri vinnu.
Það er grundvallaratriði fyrir íslenska neytendur að geta treyst því að þau matvæli sem seld eru hér á landi ógni ekki heilsu almennings. Það er mikilvægt að geta brugðist hratt við þegar matvælaöryggi er ógnað. Vegna legu landsins þarf að tryggja að nauðsynleg rannsókna- og öryggisþjónusta sé ávallt til staðar. Þetta á sérstaklega við um örverugreiningar þar sem ekki er hægt að greina sjúkdómsvaldandi örverur nema í takmarkaðan tíma. Ef um er að ræða alþjóðlega ógn sem herjar á samtímis í mörgum löndum, þá er ekki hægt að tryggja að erlendar rannsóknastofur setji íslensk sýni í forgang.
Með því að innleiða evrópsku matvælalöggjöfina hefur Ísland skuldbundið sig til að afnema bann á innflutningi á ferskum afurðum. Til að gæta öryggis neytenda er nauðsynlegt að þekkja gæði matvæla á markaði, bæði þau sem framleidd eru innanlands sem og þau sem flutt eru til landsins, meðal annars með tilliti til sjúkdómsvaldandi örvera.
Matvælaöryggi hefur fengið aukið vægi í fjölmiðlaumræðu um allan heim á undanförnum árum. En töluvert er um misvísandi upplýsingar þegar fjallað er um öryggi matvæla, t.d. sjávarafurða, eins og villtan fisk en líka landbúnaðarafurða, s.s. mjólk og egg. Neikvæð umfjöllun um íslensk matvæli getur á stuttum tíma eyðilagt jákvæða ímynd sem tekið hefur áratugi að byggja upp og bitnað harkalega á útflutningstekjum Íslendinga og dregið úr framleiðslu og sölu á innanlandsmarkaði. Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að stjórnvöld geti strax brugðist við með því að hafa tiltæk vönduð og vel skilgreind vísindaleg gögn um óæskileg efni og örverur í íslenskum matvælum til að sýna fram á öryggi og heilnæmi. Útflutningur sjávarafurða og annarra matvæla er auðvitað einnig háður því að unnt sé að sýna fram á heilnæmi með hliðsjón af lögum, reglugerðum og kröfum kaupenda.
Haldgóð gögn eru nauðsynleg á hverjum tíma og því þarf stöðuga vöktun á ástandi íslenskra matvæla og samanburð við sambærileg erlend matvæli sem seld eru hérlendis. Íslenskt sjávarfang hefur t.d. lengi verið markaðssett með áherslu á hreinleika og heilnæmi þess. Fullyrðingar um það duga hins vegar skammt, nauðsynlegt er að styðja þær með áreiðanlegum gögnum frá óháðum aðila. Slík gögn geta liðkað til fyrir markaðssetningu og sölu íslenskra afurða á krefjandi erlendum mörkuðum þar sem kröfur um gæði og öryggi endurspeglast í afurðaverðinu.