Meistaraprófsvörn í matvælafræði við Háskóla Íslands verður haldin þriðjudaginn 26. maí 2009 í húsakynnum Matís að Skúlagötu 4 og hefst kl 15.00. Guðjón Þorkelsson mun kynna og stjórna vörninni.
Meistaraprófsneminn Cyprian Ogombe Odoli frá Kenya fyrrum nemandi við Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU) hefur nú lokið verkefni sínu á þessu sviði.
Leiðbeinendur voru: Sigurjón Arason og Emilía Martinsdóttir
Verkefnið Arctic Tilapia sem unnið hefur verið að hjá Matís er styrkt af Tækniþróunarsjóði og er markmið verkefnisins að þróa framleiðsluvörur sem gera eldi á hvítfiskinum tilapia í lokaðri eldisstöð sem nýtir kælivatn frá stórri gufuaflsvirkjun hagkvæmt hérlendis. Ragnar Jóhannsson sviðsstjóri hjá Matís ohf. stendur að fyrirtækinu Arctic Tilapia ásamt öðrum og hafa þeir að markmiði að rækta tilapia fisk á Íslandi. Til þess að svo getir orðið verða markaðsleiðir fyrir afurðir að vera til staðar og tryggar. Ekki er hægt að keppa á mörkuðum fyrir frosinn fisk því samkeppnin frá Austur-Asíu er of hörð. Forsenda fyrir hagkvæmi er að og selja fiskinn á verðmiklum mörkuðum í Evrópu eins og á markaði fyrir fersk flök en til að það sé hægt þarf að flytja flökin sjóleiðis og leysa ákveðin ferskleikavandamál sem því fylgja. Framtíðarsýn er að nýta megi lágvarma frá gufuaflsvirkjunum til að framleiða í miklu magni flök fyrir verðmæta markaði.