Fréttir

Gróska og nýsköpun í íslenskri matvælaframleiðslu

Alls hlutu átján ný verkefni frumkvöðla, fyrirtækja, háskóla og stofnana í samstarfi við Matís styrk úr Matvælasjóði. Áherslur verkefnanna eru á aukna verðmætasköpun, sjálfbærni og samkeppnishæfni og taka þau m.a. til framleiðslu kjöts, grænmetis, ávaxta, saltfisks, hrognkelsa, karfa, próteinvinnslu, astaxanthins ríks lýsis, kornmetis, þangs í fóður, hrats úr bjórgerð, hraðvirkra tegundagreininga á karfa, vistferilsgreiningu á íslenskum fiski, merkingar matvæla og umhverfisvænni umbúða um matvæli.

Eitt meginhlutverk Matvælarannsókna Íslands (Matís) er að styðja við nýsköpun í íslenskum matvæla- og líftækniiðnaði og er Matís að vinna að 120 rannsóknar- og þróunarverkefnum í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir víðs vegar um landið þessa stundina. Beinar fjárveitingar stjórnvalda til Matís til að sinna hlutverki sínu, rannsóknum og nýsköpun á sviði matvæla í þágu atvinnulífsins, eru hins vegar þær sömu í krónutölu og þegar Matís var stofnað árið 2007. Það takmarkar vissulega getu og möguleika Matís til að koma á samstarfi við lítil, sem stór innlend fyrirtæki og sprota og móta hagnýt verkefni.

Matís og samstarfsaðilar í 18 verkefnum sem hlutu styrk úr Matvælasjóði í ár.

Því ber að fagna árangri Matís og samstarfsaðila okkar í nýlegri úthlutun Matvælasjóðs á þróunar- og nýsköpunarstyrkjum við framleiðslu og vinnslu matvæla og hliðarafurða úr íslenskum landbúnaðar- og sjávarafurðum. Þakka má þennan glæsta árangur þrotlausri vinnu og miklum metnaði starfsmanna Matís í að styðja við nýsköpun í íslenskri matvælaframleiðslu. Þeir starfsmenn Matís sem koma að þessum rannsóknar- og nýsköpunarverkefnum eru stoltir að fá tækifæri til að vinna með framsýnum fyrirtækjum, stofnunum og frumkvöðlum í að móta framtíðina, tryggja matvælaöryggi og stuðla að aukinni verðmætasköpun og bættri lýðheilsu. Hér á eftir fylgir stutt yfirlit og upplýsingar um þau 18 verkefni sem Matís tengist og fengu brautargengi í Matvælasjóði í þessum mánuði sem og samstarfsaðila okkar í verkefnunum. 

  1. Hringrásarhagkerfi kjötframleiðslu (Kelda). Samstarf Norðlenska á Akureyri og Matís. Meginmarkmið verkefnisins er að bæta framleiðslu og meðhöndlun hráefnis fyrir íslenskan kjötiðnað. Verkefnið snýst um að rannsaka möguleika á aukinni nýtingu og verðmætasköpun á hliðarafurðum úr sláturhúsum og kjötvinnslu sem í dag eru vannýtt á Íslandi. Hliðarafurðir sláturhúsa og kjötvinnslna eru fjölmargar, t.d. ýmiss innmatur, blóð, afskurður og bein og eru framúrskarandi uppspretta næringarefna svo eitthvað sé nefnt.
  2. Trefjaríkt og hollt hýði? Varnarefni, þungmálmar og næringarefni í ytra og innra byrði íslensks og innflutts grænmetis og ávaxta. (Kelda).Samstarf Matvæla- og næringarfræðideildar Háskóla Íslands og Matís. Sölufélag garðyrkjubænda í Reykjavík telur verkefnið muni nýtast vel garðyrkjubændum á Íslandi og jafnframt mun Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins í Reykjavík koma að verkefninu. Markmið verkefnisins er tvíþætt: a) Að sýna fram á sérstöðu íslensks grænmetis með tilliti til varnarefnaleifa samanborið við innflutt grænmeti. b) Að auka neyslu á vannýttum hliðarafurðum – hýði og berki. Ytra byrði grænmætis og ávaxta er gjarnan trefjaríkt og hollt og því getur aukin neysla ekki eingöngu haft jákvæð umhverfisáhrif með nýtingu vannýttra hliðarafurða heldur einnig haft jákvæð áhrif á lýðheilsu Íslendinga.
  3. Súrþang og góðgerlar í fiskeldi (Kelda). Samstarf Fóðurverksmiðjunnar Laxá á Akureyri, Þörungaverksmiðjunnar Thorverks, Þörungaklausturs í Reykhólasveit og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa fóðurbæti með lífvirka eiginleika úr mjólkursýrugerjuðu þangi fyrir fiskeldi.
  4. Saltfiskur til framtíðar (Kelda). Samstarf Þorbjörns og Vísis í Grindavík, Matvæla- og næringarfræðideildar Háskóla Íslands og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa og besta framleiðsluferli við útvötnun á saltfiski með það fyrir augum að flytja út tilbúna neysluvöru og ná þannig fram auknum virðisauka.
  5. Áskoranir við pökkun grænmetis (Kelda).  Samstarfsaðilar eru Samband garðyrkjubænda, Sölufélag garðyrkjubænda í Reykjavík og Matís. Jafnframt munu Samtök sunnlenskra sveitarfélaga koma að verkefninu.   Markmið verkefnisins eru að: a) Gefa yfirlit um valkosti við pökkun grænmetis. b) Rannsaka geymsluþol og gæði grænmetis fyrir mismunandi pökkun við íslenskar aðstæður. c) Gefa yfirlit um áhrif umbúða á umhverfi og heilsu fólks. d) Framkvæma útreikninga hjá garðyrkjubændum á kolefnisspori grænmetis með tilliti til pökkunar.
  6. Næringarefni úr hrakstraumum bjórgerðar (Kelda). Samstarf Ölgerðarinnar í Reykjavík og Matís. Markmið verkefnisins er að nýta hliðarafurðir sem falla til við bjórgerð og skapa úr þeim verðmæti. Hratið sem fellur til eftir möltun (hitun til að losna við gerjanlegar sykrur úr korninu) er ríkt af próteinum og hemisellulósa.  Í verkefninu verða lífvirkar fásykrur unnar úr hratinu með hjálp ensíma. Jafnframt verður prótein unnið úr hráefninu og prófað í fiskafóður.
  7. CRISP-FISH: Hraðvirk tegundagreining á karfa (Kelda). Samstarf Útgerðarfélags Reykvíkinga, Brims í Reykjavík og Matís. Þrjár tegundir karfa eru mikilvægar í útflutningi okkar á erlenda markaði, gullkarfi, djúpkarfi og litli karfi. Af þessum tegundum er gullkarfi verðmætastur og má segja að við höfum markaðsráðandi stöðu því 85% af heimsaflanum kemur frá Íslandi. Ódýrar karfaafurðir frá Asíu ógna okkar mörkuðum, og þótt erfðafræðilegar aðferðir séu til staðar og nauðsynlegar til að greina á milli tegunda þá eru þær tímafrekar og einungis framkvæmdar á rannsóknastofum í sérhæfðum búnaði og af þjálfuðu fólki. Markmið verkefnisins er að þróa hraðvirkar erfðafræðilegar aðferðir til tegundagreininga á mismunandi karfategundum.
  8. Bættir vinnsluferlar við sjófrystingu karfa (Kelda). Samstarf Útgerðarfélag Reykvíkinga, Matvæla- og næringarfræðideildar Háskóla Íslands og Matís. Markmið verkefnisins er að leita leiða til þess að nýta lóðrétta plötufrysta til frystingar á karfa við sjóvinnslu. Möguleiki á nýtingu þess búnaðar myndi leiða til aukinna afkasta við vinnsluna og sveigjanleika en frysting er oft flöskuháls við sjóvinnslu karfa þar sem ekki er hægt að fullnýta frystigetu skipa.
  9. Nýjar lausnir við merkingar matvæla (Kelda). Samstarf Samtaka smáframleiðenda matvæla, Hugsjár í Reykjavík og Matís. Markmið verkefnisins er að móta nýjar lausnir við merkingar matvæla í samræmi við reglugerðarákvæði, og stuðla þannig að því þær verði eins réttar og öruggar og mögulegt er. Afurðir verkefnisins verða nýjar lausnir fyrir matvælaframleiðendur; ítarlegar leiðbeiningar (vefbók) um merkingar matvæla (næringargildi, innihaldslýsingar, aukefni og geymsluþol) ásamt hugbúnaðarlausn sem vinnur með ÍSGEM gagnagrunninum við útreikning næringargildis út frá uppskrift. Lausnirnar eru vinnusparandi fyrir matvælaframleiðendur, sérstaklega smáframleiðendur.
  10. Nýting hrognkelsa (Kelda). Samstarf Arctic fish á Ísafirði, Marine Collagen í Grindavík Hafrannsóknastofnunar, Háskóla Íslands og Matís. Aðalmarkmið verkefnisins er að kanna nýtingamöguleika á hrognkelsum til gelatín og kollagen framleiðslu. Hrogn grásleppu eru í dag nýtt til kavíarframleiðslu og grásleppan eftir hrognatöku gjarna fryst til manneldis. Manneldismarkaðir fyrir frysta grásleppu hafa verið mjög sveiflukenndir og því felst mikið virði í því að finna fleiri nýtingarmöguleika á bæði grásleppu og rauðmaga. 
  11. Mannakorn – Betra bygg með bættum aðferðum (Kelda). Samstarf Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og Matís. Auk þess er samstarf við byggbændur víða um land við leit að bestu yrkjum byggs. Markmið verkefnisins eru að finna þau afbrigði af yrkjum sem henta við íslenskar aðstæður sem ná fullnægandi þroska og gæðum svo unnt verði að rækta þau á hagkvæman máta.
  12. Mannakorn – Hafrar og hámörkun gæða (Kelda). Samstarf Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins, Líflands í Reykjavík, Sandhólsbænda í Skaftárhreppi og Matís. Meginmarkmið verkefnisins er að leggja grunn að nýjum geira í kornrækt á Íslandi, hafrarækt. Hafrar eru nýjung í íslenskri kornrækt, búgrein sem er að slíta barnsskónum á Íslandi. Hafrar hafa lítið verið rannsakaðir hér á landi og kynbætur fyrir íslenskar aðstæður ekki verið stundaðar. Hafrar eru þó ræktaðir hérlendis en verulega má bæta í þá ræktun að umfangi og gæðum.
  13. Umhverfisvænni matvælaumbúðir (Kelda). Samstarf Tempru í Hafnarfirði, Sæplasts og ITUB Iceland á Dalvík, Samherja á Akureyri, Arnarlax á Bíldudal, Háskóla Íslands og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa léttari og umhverfisvænni umbúðir við útflutning ferskra fiskafurða.
  14. Verðmæti í vinnsluvatni bolfiskvinnslu (Kelda). Samstarf Brims í Reykjavík, Vísis og Þorbjörns í Grindavík, Samherja á Akureyri og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa verðmætar afurðir úr próteini í vinnsluvatni frá bolfiskvinnslu. Magn og eiginleikar próteina í vatni frá mismunandi vinnslutækjum verða kortlagðir að teknu tilliti til hráefnis, stillinga búnaðar o.s.frv. Lagt verður mat á hvort unnt sé að minnka próteintap og aðferðir þróaðar til að safna og vinna úr þessu hliðarhráefni vörur til manneldis.
  15. Áhrif endurnýjunar íslenska fiskiskipaflotans á kolefnisspor afurða (Kelda). Samstarf Vinnslustöðvarinnar og Leo Seafood í Vestmannaeyjum, Skinneyar Þinganes á Höfn í Hornafirði, Síldarvinnslunar í Neskaupstað, Fisk Seafood og Versins Vísindagarða á Sauðarkróki, Hraðfrystihússins Gunnvarar í Hnífsdal, Brims, SFS, og ISI í Reykjavík, ICECO Foods í Hafnarfirði, Salties í Kanada og Matís. Markmið verkefnisins er að gera vistferilgreiningu á íslenskum fiskafurðum sem unnin eru úr afla nokkurra togara sem hafa komið til landsins á undanförnum árum, til að meta áhrif endurnýjunar flotans á kolefnisspor afurðanna.
  16. Gæðabreytingar próteina við vinnslu þorsk- og karfaafurða (Kelda).  Samstarf Vísis í Grindavík, Brims í Reykjavík, Matvæla- og næringarfræðideildar Háskóla Íslands og Matís. Markmið verkefnisins er að rannsaka áhrif léttsöltunar og saltfisksvinnslu á gæði próteina í þorskafurðum sem og áhrifum frystingar og frystigeymslu á gæði próteina í karfaafurðum. Takmarkið er að öðlast betri skilning á áhrifum þessara vinnsluferla á prótein í sjávarafurðum og hvernig megi viðhalda stöðugum gæðum próteinanna m.t.t. eiginleika og lífvirkni í gegnum alla virðiskeðjuna, frá veiðum til neytenda.
  17. Rauða gullið (Afurð). Samstarf Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, Matvæla- og næringarfræðideildar Háskóla Íslands og Matís. Meginmarkmið verkefnisins er að fullvinna astaxanthínríkt lýsi úr rauðátu sem berst til lands sem aukahráefni eða meðafli frá uppsjávarfisksveiðum. Rauðáturíkum hliðarstraumum verður safnað við fullvinnslu makríls í fiskiðjuveri SVN með nýjum söfnunarbúnaði. Að söfnun lokinni verða þrjár mismunandi vinnsluaðferðir notaðar við framleiðslu á astaxanthínríku lýsi. Rauðáta inniheldur mikið magn af fjölómettuðum fitusýrum sem og af andoxunarefninu astaxanthín, sem gerir hana eftirsótta í áframhaldandi vinnslu.  
  18. Sjávargull (Afurð). Samstarf Slippsins og Samherja á Akureyri og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa lausnir til að fá fram stöðug og rétt gæði á bolfiskafurðum við vélræna blæðingu og þvott um borð í vinnsluskipum. 

Matís óskar öllum þeim sem koma að ofangreindum nýsköpunarverkefnum til hamingju með styrkina og að samstarfið skili þeim niðurstöðum, afurðum og þekkingu sem þarf til að efla enn frekar íslenska matvælaframleiðslu um allt land. Matís kom að öðrum umsóknum til Matvælasjóðs í ár sem ekki fengu brautargengi í þetta sinn en verða vonandi, eftir endurbætur, síðar að verkefnum. Það er hins vegar ljóst að það er mikið af góðum hugmyndum og mikil gróska og nýsköpunarkraftur hjá sprotum, litlum og stórum fyrirtækjum víðs vegar um landið sem leita eftir þekkingu frá Matís við þróun og nýsköpun matvæla og hliðarafurða. Matís mun halda áfram að vinna sitt mikilvæga starf í að styðja við nýsköpun innan íslenska matvælageirans með sérfræðiþekkingu, tækjabúnaði og aðstöðu.

IS