Nýtt verkefni er nú hafið hjá Matís sem ætlunin er að kanna á áhrif mismunandi söltunaraðferða og íblöndunarefna m.t.t. að draga úr neikvæðu áhrifum dauðastirðnunar á upptöku pækils.
Mikill munur er á vinnslueiginleikum eldisþorsks og villts þorsks. Vöxtur eldisþorsks er hraðari og aðstæður í umhverfi aðrar. Einnig er stýring á slátrun og meðhöndlun önnur við veiðar á villtum fiski. Í fyrri rannsóknum hefur komið fram að best sé að vinna eldisþorsk fyrir dauðastirðnun en það hefur skapað vandkvæði við framleiðslu á léttsöltuðum afurðum. Þeir lífeðlisfræðilegu ferlar sem eiga sér stað við dauðastirðnun vinna á móti þyngdaraukningu, m.a. vegna þess að vöðvinn dregst saman. Vorið 2010, samþykkti AVS (www.avs.is), að styrkja verkefni þar sem kanna á áhrif mismunandi söltunaraðferða og íblöndunarefna m.t.t. að draga úr neikvæðu áhrifum dauðastirðnunar á upptöku pækils. Ráðist verður í tilraunir með haustinu en áætluð verkefnislok eru í júní 2011.
Þátttakendur í verkefninu er Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf og Matís ohf. Kristján G. Jóakimsson er verkefnisstjóri en Kristín A. Þórarinsdóttir, kristin.a.thorarinsdottir@matis.is, stýrir þeirri vinnu sem fram fer af hálfu Matís í verkefninu.
Verkefnaheiti: Léttsaltaðar afurðir úr eldisþorski