Málstofa um markaðsaðgreiningu bolfisks frá Norður-Atlantshafi. Niðurstöður rannsókna á markaðsaðgreiningu bolfisks frá Norður-Atlantshafi verða kynntar á málstofu hjá Matís þann 4. desember næstkomandi.
Niðurstöðurnar koma úr verkefninu WhiteFishMaLL sem styrkt er af Norrænu Nýsköpunarmiðstöðinni (Nordic Innovation Centre) og aðilar frá Noregi, Íslandi, Færeyjum og Kanada vinna að. Markmið verkefnisins er að tryggja frekari aðgreiningu á bolfiski úr Norður-Atlandshafinu frá ódýrari hvítfisktegundum, sem nú streyma inn á okkar helstu markaðssvæði, sér í lagi inn á Bretlandsmarkað.
Vinna við verkefnið hófst í byrjun árs og hafa farið fram markaðsrannsóknir í Bretlandi á meðal fiskneytenda, auk þess sem viðtöl og fundir hafa verið haldnir með aðilum sem starfa í þessum geira við vinnslu, sölu og markaðsstarf. Viðhorf rýnihópa sem samanstanda af dæmigerðum fiskneytendum í Bretlandi hafa hefur verið könnuð gagnvart bolfiskafurðum frá N-Atlantshafi og hvernig bæta megi upplifun þeirra við innkaup, matreiðslu og neyslu.
Í framhaldinu var gerð skoðanakönnun á meðal 1500 neytenda í Bretlandi þar sem þeir voru spurðir útí fjölmarga þætti sem viðkoma fiski og hvernig bæta má aðgengi, upplifun og auka fræðslu til að sinna þörfum neytenda enn betur. Eftirfarandi áhersluþættir hafa þróast í framhaldinu og mynda þeir grunninn að markaðsaðgreiningunni:
- Gagnsæi upplýsinga og rekjanleiki í tengslum við virðiskeðju fisks.
- Persónulegra viðmót í markaðsstarfi verslana í tengslum við afurðir.
- Upplýsingar um sjálfbærni afurða byggð á staðreyndum og áreiðanlegum gögnum.
- Áhersla á þægindi og heilnæli afurða.
- Aðferðafræðileg lausn á því hvernig söluaðilar geta komið til móts þarfir neytenda.
Á málstofunni er ætlunin að meta áhersluþætti sem mótaðir hafa verið í verkefninu við að draga fram sérstöðu afurða og er ætlunin að þróa þetta áfram næstu tvö árin. Því er mikilvæg að fulltrúar úr atvinnulífinu taki virkan þátt í málstofunni og rýni niðurstöðurnar með þeim sem að verkefninu standa.
Málstofan mun fara fram á ensku og er öllum opin, en nauðsynlegt er að skrá sig á heimasíðu verkefnisins (www.whitefishmall.com), athugið takmarkað sætaframboð. Málstofan fer fram á Matís, Vínlandsleið þriðjudaginn 4. desember.
Nánari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson hjá Matís, jonast.r.vidarsson@matis.is, 858-5107.