Tengiliður
Anna Kristín Daníelsdóttir
Aðstoðarforstjóri / Rannsókna- og nýsköpunarstjóri
annak@matis.is
Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, sótti nú nýverið ráðstefnu sem haldin var í samstarfi rannsóknaáætlunar Evrópu (Horizon 2020) og sambærilegra rannsóknaáætlana Suður Afríku og Brasilíu. Tilgangur ráðstefnunnar var að ýta rannsóknastarfi tengt BELEM yfirlýsingunni úr vör, en með henni er grunnur lagður að auknum rannsóknum og nýsköpun sem byggja á sjávarauðlindum Atlantshafsins.
Á ráðstefnunni lagði John Bell, yfirmaður rannsóknaáætlunar Horizon 2020 varðandi málefni hafsins og lífhagkerfisins, áherslu á mikilvægi hafsins í næstu rannsóknaáætlun Evrópu (Horizon Europe), en fyrirhugað er að leggja 100 milljarða evra í rannsóknir og nýsköpun í þeirri áætlun, sem er umtalsverð aukning frá Horizon 2020. Í lokaræðu sinni sagði John Bell að við þurfum að breyta ástandi hafsins til að breyta ástandi heimsins. Hefjumst handa (e. „We need to change the state of the ocean, to change the state of the world. Let´s get on with it“).
Á fundinum var m.a. horft til þess hve vel Íslendingar hafa náð að tengja saman störf vísindamanna og sjávarútvegsfyrirtækja, en hlutverk Matís á fundinum var m.a. að segja frá reynslu Íslendinga af hagnýtingu nýrrar þekkingar og miðlun vísindaniðurstaðna til fyrirtækja og almennings.
Rannsóknainnviðir voru mikið ræddir á ráðstefnunni, en BELEM yfirlýsingin snýr m.a. að betri nýtingu þeirra. Rekstur hafrannsóknaskipa um allan heim gengur sífellt erfiðar, vegna aukins kostnaðar við úthald þeirra, og á sama tíma hafa opnast nýir möguleikar til gagnasöfnunar með sjálfvirkum mælitækjum, m.a. á fiskiskipum, sem og með ómönnuðum kafbátum.
Nánari upplýsingar um BELEM yfirlýsinguna:
https://ec.europa.eu/research/iscp/pdf/belem_statement_2017_en.pdf