Fréttir

Mikilvægt að landa afla tímanlega

Mikilvægt er að afla sé landað tímanlega svo hægt sé að nýta hann betur því um leið og fiskur er veiddur rýrnar hann og tapar ferskleika. Þetta er umfjöllunarefni Guðbjargar Heiðu Guðmundsdóttur í meistaraverkefni sínu, sem nefnist Áætlanagerð fyrir hámarkshagnað í íslenska þorskiðnaðinum, í véla- og iðnaðarverkfræðiskor. Guðbjörg mun halda opinn fyrirlestur um verkefni sitt þann 24. september.

Eftir að fiskur hefur verið veiddur rýrnar hann um borð í fiskiskipum og tapar ferskleika. Þessi rýrnun minnkar vinnslumögleika og nýtingu á flökum fisksins. Það er því mikilvægt að aflanum sé landað tímanlega til að hægt sé að nýta hann betur. Ennfremur að tekið sé tillit til vinnslunnar við skipulagningu útgerðar þannig að vinnslan geti unnið fiskinn jafnóðum og komið honum ferskum á markað. Stærðfræðilíkan sem skipuleggur veiðiferðir fiskiskipa og framleiðslu í fiskvinnslu er sett fram. Rekstrarhagnaður vinnslunnar og útgerðarinnar er hámarkaður með tilliti til rýrnunar á aflanum. Aðrir þættir í bestunarlíkaninu eru birgðastaða og flæði í vinnslu.

IMG_0393

Markmið verkefnisins er að hanna hugbúnað sem sjávarútvegsfyrirtæki geta nýtt til aðstoðar við ákvarðanatöku. Möguleikinn á að nýta líkanið er sýndur með því að beita líkaninu á íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki. Áhrif lengdar veiðiferða á rýrnun er kannað auk annarra áhrifaþátta.

Samstarf við Matís

Verkefni Guðbjargar Heiðu er unnið í samstarfi við Matís og hefur verkefnið verið hluti af stærra verkefni, Vinnsluspá þorskafla, sem styrkt er af Rannís og AVS.

Verkefnið er unnið undir leiðsögn Páls Jenssonar, prófessors við Véla- og iðnaðarverkfræðiskor HÍ og Sveins Margeirssonar doktorsnema í Véla- og iðnaðarverkfræði og deildarstjóra á Matís ohf. Prófdómari er Snjólfur Ólafsson, prófessor við Viðskipta- og hagfræðideild HÍ.

Staður og stund: Guðbjörg mun halda opinn fyrirlestur um verkefni sitt þann 24. september næstkomandi klukkan 12 í stofu 157 í VR-II í húsi Verkfræði- og raunvísindadeilda við Hjarðarhaga 4.

IS