Lokið er samstarfsverkefninu Lágmörkun vöðvadreps í leturhumri með ensímhindrun og undirkælingu sem AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi styrkti (R 052-10). Rannsóknaverkefnið var unnið í samstarfi, Skinneyjar Þinganess, Rammans, Vinnslustöðvarinnar og Matís.
Niðurstöður verkefnisins eru aðgengilegar í Matísskýrslu 25-11. Meðal niðurstaðna verkefnisins voru verklagsleiðbeiningar varðandi undirkælingu og ensím meðhöndlun humars vinnubrögð sem hafa styrkt stoðir humarveiða hér við land og þar með humarvinnslu hér á landi. Áður en ráðist var í verkefnið kom það fyrir að upp undir þriðjungur og jafnvel allt að helmingur afla, í einstökum afmörkuðum tilfellum, bæri einkenni vöðvadreps. Við upphaf verkefnisins var áætlað að vegna vöðvadreps væri verðmæti humarafurða um 10% lægra en ella. Það er mat þátttakenda að með nýju verklagi hafi mátt helminga vöðvadrep og eru því líkindi til þess að bætt verklag skili um 5% aukningu verðmæta humarafurða, miðað við forsendur verkefnisins í upphafi þess.
Þáttakendur tóku fram að án stuðnings AVS hefði ekki orðið af verkefninu sem hafi bætt samkeppnistöðu íslenskrar humarvinnslu.
Nánari upplýsingar veitir Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Auðlinda og afurða.