Fréttir

Minnkandi fiskneysla sögð áhyggjuefni

Fiskneysla ungs fólks fer minnkandi og ef ekkert verður að gert mun hún halda áfram að minnka á komandi árum. Þar kom fram að matarvenjur í æsku hafa mótandi áhrif á neyslu síðar meir. Einnig kemur fram munur á fiskneyslu eftir landshlutum og þá virðast ungar konur hrifnar af fiski og grænmeti en ungir karlar eru hrifnari af skyndibita og kjöti. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra, sem tók þátt í fundinum, sagði niðurstöðu þessarar rannsóknar vera áhyggjuefni.

Hann sagði að rannsóknin ætti að vera fólki hvatning til þess að gera betur í þessum málum.

Rannsókn Matís náði til ungs fólks á aldrinum 17 til 26 ára og niðurstöðurnar benda til að Íslendingar muni borða enn minna af fiski í framtíðinni en þeir gera í dag ef ekkert verður að gert. Ungt fólk borðar fisk sem aðalrétt að meðaltali rúmlega einu sinni í viku sem er töluvert undir þeirri fiskneyslu sem Lýðheilsustöð ráðleggur. Fiskneysla þessa aldurshóps hefur dregist verulega saman á undanförnum árum.Rannsóknin er samvinnuverkefni Matís ohf., Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, Rannsóknarstofu í næringarfræði á Landspítala Háskólasjúkrahúsi og fyrirtækisins Icelandic Services. Í verkefninu voru kannaðar neysluvenjur ungs fólks (17-26) ára á Íslandi. Könnunin tók meðal annars til viðhorfa til heilsu, fiskneyslu, neyslu annarra matvæla, innkaupa á fiski og einnig smekk á mismunandi fiskréttum. Spurt var um þætti sem hafa áhrif á fiskneyslu, kannað hvaðan neytendur fá upplýsingar um fisk og það traust sem þeir bera til slíkra upplýsinga.


Greining á afstöðu ungs fólks til matar og heilsu leiddi í ljós þrjá aðskilda neysluhópa. Minnsti hópurinn er 18% af heildinni og mótast neysla hans af heilsu og áhuga á eldamennsku. Þessi hópur neytir fisks. Í næsta hóp (39%) eru yfirleitt karlmenn sem borða þann mat sem settur eru fyrir þá en kjósa helst kjöt og skyndibita. Stærsti hópurinn (43%) eru mestan part konur sem njóta þess að borða fisk en eru óöruggar um hvernig skal matreiða hann.Fjölskyldan er sterkur áhrifavaldur á fiskneyslu en í ljós kom að matarvenjur í æsku hafa mótandi áhrif á fiskneyslu unga fólksins og einnig búseta þeirra í æsku. Einnig kom fram að sá hluti fólks sem er fluttur úr foreldrahúsum borðar minnst af fiski. Þá virðist munur á fiskneyslu eftir landshlutum en fólk á landsbyggðinni hefur ekki jafn greiðan aðgang að fiskbúðum eða ferskfiskborði í matvörubúðunum og fólk á höfuðborgarsvæðinu. Fólk á landsbyggðinni hefur þar af leiðandi ekki úr jafn mörgum fiskréttum að velja í verslunum og borðar frekar hefðbundnar fisktegundir og -rétti.


Úrtak rannsóknarinnar var 1.735 manns og svarhlutfall 86,7%.Rannsóknaverkefnið er styrkt af AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi.

Sjávarútvegsráðherra á blaðamannafundi um niðurstöður rannsóknarinnar í Sjóminjasafninu.

Mynd: Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, á blaðamannafundi í Sjóminjasafninu um niðurstöður rannsóknarinnar.

Viðhorf og fiskneysla ungs fólks á aldrinum 18 til 25 ára – Lýsandi tölfræðiúrvinnsla

IS