Fréttir

Mun matvælaskortur leiða til átaka?

Sveinn Margeirsson forstjóri Matís var í viðtali í Morgunútvarpinu þriðjudaginn 9. júlí. Þar talaði hann um þau vandamál sem steðja að heimsbyggðinni hvað varðar matvælaframleiðslu og fæðuöryggi í dag og í nánustu framtíð.

Í þættinum ræðir Sveinn það hvort tækniþróun muni  leysa þau vandamál sem steðja að matvælaframleiðslu sökum fólksfjölgunar og samdráttar í matvælaframleiðslu. En rannsóknir benda til þess að aukning á matvælaframleiðslu sé að minnka og komið sé að náttúrulegum þolmörkum jarðvegs. Sveinn bendir þó á að enn séu talsverðir möguleikar í nýtingu sjávar og sjávarafurða. En Íslendingar hafa verið leiðandi í rannsóknum og þróun á fullvinnslu fisks.

Hann bendir á að næsta stóra rannsóknaráætlun Evrópusambandsins  „Horizon“ 2020 miði að því að tækla vandamál á borð við fæðuöryggi og meðhöndlun lífhráefna. Ísland er þáttakandi í þessu verkefni og hluti af verkefnum Matís um þessar mundir tengjast þessari rannsóknaráætlun.  

„Matvæli, matvælaverð og fæðuframleiðsla verður áfram stórt málefni sem þarf virkilega að huga að. Eins og stríð fortíðar snerust að einhverju leyti um olíu og aðgang að þeim auðlindum þá finnst mér ekkert ósennilegt að deilur framtíðar munu að einhverju leyti snúast um aðgengi að landssvæðum, hafssvæðum og mögulega tækni sem hjálpar okkur við matvælaframleiðslu. Svona í stóra samhenginu má ekki gleyma að margar af stærri byltingum sögunnar hafa komið fram þegar matvælaverð hefur hækkað eða þegar það hefur verið skortur á fæðu, franska byltingin er bara ágætis dæmi.“

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild á vefsíðu RÚV.

IS