Fréttir

Næringargildi og öryggi byggs til manneldis

Matís ohf. og Landbúnaðarháskóli Íslands hafa leitað leiða til að nýta íslenskt bygg til manneldis. Það er Framleiðnisjóður landbúnaðarins sem hefur styrkt þetta starf. Niðurstöðurnar verða kynntar á málþingi í húsi Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti 31. október nk.

Prófanir hafa verið gerðar á framleiðslu byggbrauða, byggmalts og bjórs. Bygg úr ræktunartilraunum Landbúnaðarháskólans og frá bændum var rannsakað með tilliti til næringargildis og öryggis til manneldis. Góður árangur náðist við framleiðslu byggbrauða og tókst að framleiða brauð með allt að 40% af byggmjöli á móti hveiti. Framleidd voru 600 kg af malti úr íslensku byggi og var maltið síðan notað til að framleiða bjór. Þeir sem bragðað hafa á bjórnum eru sammála um að hann sé ágætur og vel hafi tekist til í þessari tilraun. Mælingar á efnainnihaldi íslenska byggsins benda til að það henti til manneldis. Ýmsir möguleikar eru á notkun byggs og byggmjöls í matvælaiðnaði. Verðhækkanir á innfluttri mjölvöru gætu stuðlað að því að gera íslenskt bygg samkeppnishæfara en áður.

Miklar framfarir hafa orðið í kynbótum og ræktun byggs hér á landi. Byggið hefur fyrst og fremst verið nýtt sem skepnufóður en áhugi á nýtingu þess til manneldis hefur farið vaxandi. Það er ekki síst vegna þess að meira er af trefjaefnum í byggi en hveiti. Frá manneldissjónarmiði er mikilvægt að auka magn trefjaefna í fæði Íslendinga. Það er sérstaklega áhugavert að í bygginu eru vatnsleysanleg trefjaefni sem kallast beta-glúkanar. Þessi trefjaefni geta lækkað kólesteról í blóði og haft dempandi áhrif á blóðsykur. Hægt er að auka hollustu brauðvara með því að nota að hluta til bygg í staðinn fyrir hveiti. Það er því hægt að mæla með því að bökunariðnaðurinn fari að nota bygg í framleiðslu sína.

Staður: Hús Landbúnaðarháskóla Íslands, Keldnaholti, efstu hæð

Tími: Föstudagurinn 31. október 2008, kl 14-16.

Fundarstjóri: Áslaug Helgadóttir

Dagskrá:

14:00 – 14:20Bygg til manneldis. – Næringargildi og öryggi (Ólafur Reykdal, Matís)
14:20 – 14:40Framleiðsla á íslensku bygg (Jónatan Hermannsson, LbhÍ)
14:40 – 14:55Brauðvörur úr byggi (Aðalheiður Ólafsdóttir, Matís)
14:55 – 15:10Íslenskt byggmalt til bjórgerðar (Jón Guðmundsson, plöntulífeðlisfræðingur, LbhÍ)
15:10 – 15:25Íslenski bjórinn (Guðmundur Mar Magnússon, bruggmeistari Ölgerðarinnar)
15:25 – 16:00Umræður
 Veitingar: Bjórinn og brauðið.
IS