Fréttir

Nákvæmari leiðbeiningar með vefforritinu www.hvaderimatnum.is

Þróun á vefforritinu „Hvað er í matnum – www.hvaderimatnum.is“ er ekki lokið en vegna óska fjölmargra aðila er það nú þegar gert aðgengilegt á vefnum.

Hægt er að nota forritið til að skoða efnainnihald matvæla og gera ýmsa útreikninga. Þessar leiðbeiningar eiga að auðvelda fólki að hagnýta forritið.

Almenn atriði

  1. Nauðsynlegt er að Java forritið sé á tölvu notenda.
  2. Til vinstri á skjánum er listi fyrir fæðutegundir úr ÍSGEM-gagnagrunninum í stafrófsröð. Hægt er að velja einstaka fæðuflokka úr listanum með því að smella á fellilista yfir honum.
  3. Neðst á skjánum birtast eftirtaldir valmöguleikar: (1) Fæða. (2) Næringarefni. (3) Samsetning. (4) Uppskriftir. Síðustu tveir möguleikarnir hafa enn sem komið er takmarkaða virkni: (5) Ég og vinir. (6) Máltíðir.  
  4. Leitin efst á skjánum er ekki virk.


Þarftu að finna efnainnihald matvæla?

  1. Smelltu á FÆÐA neðst á skjánum. Þá færðu hægra megin á skjánum töflu sem sýnir efnainnihald matvæla. Innihaldið er gefið upp fyrir 100g af ætum hluta matvælis. Aftur á móti ef þú reiknar næringarefni í uppskrift eða máltíð þá bætast niðurstöðurnar neðst í töfluna og þær gilda fyrir heildarmagn uppskriftar eða máltíðar.
  2. Athugaðu að þú þarft að nota listann til vinstri til að velja (smella á) þá fæðutegund sem þú ætlar að skoða. Listarnir vinstra og hægra megin eiga saman þó þeir séu aðskildir með línu og blá yfirstrikunin er bara í listanum til vinstri.
  3. Hægt er að raða öllum fæðutegundum eftir vaxandi eða minnkandi magni eins efnis. Þá er smellt á reitinn undir heiti efnis til hægri.
  4. Ef þú velur NÆRINGAREFNI neðst á skjánum færðu lista yfir næringarefni í einni fæðutegund. Mundu að hafa rétta fæðutegund valda í listanum til vinstri. Hér er boðið upp á að forritið sæki mynd af viðkomandi matvæli en þessi möguleiki er ekki fullþróaður. Í dálki til hægri er gefið upp æskilegt magn en hafðu í huga að þær upplýsingar geta verið rangar ef þú ert ekki skilgreindur í réttan hóp eftir aldri og kyni.
  5. Ef þú velur SAMSETNING neðst á skjánum getur þú skoðað grafíska framsetningu fyrir næringarefnin. Notið þó ekki myndina sem sýnir orkudreifingu því útreikningar eru rangir.

Þarftu að reikna magn næringarefna í uppskrift?

  1. Með því að ýta á + í miðreitnum býrðu til nýja uppskrift. Smelltu á línuna fyrir nýju uppskriftina til að gefa henni nafn.
  2. Veldu hráefni í uppskriftinni úr listanum til vinstri og dragðu hana yfir á reitinn yst til hægri.
  3. Þú breytir magni hráefnisins með því að smella á viðeigandi línu undir MAGN. Í sumum tilfellum er hægt að velja skammtastærð undir EINING.
  4. Útreikningarnir gerast um leið og þú bætir við nýjum hráefnum og gefur upp magn þeirra. Nýja uppskriftin bætist neðst í listann til vinstri. Ef þú raðar listanum fylgja uppskriftirnar með. Þú þarft að velja FÆÐA eða NÆRINGAREFNI til að skoða niðurstöðurnar. Þú skoðar þær eins og lýst er hér að framan. Niðurstöðurnar eru magn næringarefna í allri uppskriftinni eða máltíðinni en ekki 100g eins og gildir um fæðutegundirnar (hráefnin) í listanum.
  5. Þú getur afritað niðurstöðurnar í Excel skjal. Veldu þá NÆRINGAREFNI. Merktu alla reitina sem þú ætlar að afrita. Hægt er að afrita með Ctrl-C og setja inn í Excel skjal með Ctrl-V.


Þarftu að reikna magn næringarefna í máltíð eða máltíðum eins dags eða fleiri daga?

  1. Meðal forritið er ekki fullþróað er auðveldast að nota valmöguleikann UPPSKRIFTIR til að reikna út magn næringarefna í máltíð eða dagsneyslu.


Nánari upplýsingar veitir Ólafur Reykdal.

IS