Á Líftæknisviði Matís er nú unnið að verkefni sem miðar að því að þróa og rannsaka mismunandi nýjar próteasablöndur úr þorskslógi í þeim tilgangi að nota blöndurnar til framleiðslu á hydrolýsötum (niðurbrotnum próteinum) og peptíðum úr fiski með mjög mikla andoxunarvirkni. Forrannsóknir hafa sýnt fram á að ensímblöndur úr þorskslógi geta framleitt peptíð með mjög mikla andoxunarvirkni, mun meiri en peptíð fengin úr niðurbroti annarra algengra ensímblandna sem hafa verið kannaðar.
Með því að stilla af styrk og virkni lykilensíma í próteasablöndunni sem unnin er úr slógi er markmiðið að hægt sé að stýra framleiðslunni á hydrolýsötum og peptíðum til að framleiða náttúrulegar afurðir með mjög mikla sértæka andoxunarvirkni. Þessar afurðir yrðu unnar úr protein isolati einangruðu úr vannýttu hráefni (hryggjum).
Framtíðarsýnin er að í lok þessa verkefnis muni hefjast framleiðsla á stórum skala og sala á mismunandi einstökum iðnaðarensímblöndum unnum úr þorskslógi sem yrðu sérstaklega markaðsett til framleiðslu á lífvirkum peptíðum. Einnig er séð fram á að fyrirtæki í próteinvinnslu hér á landi komi til með að nýta sér þessi einstöku ensím til framleiðslu á náttúrulegum andoxunarefnum bæði til nota í matvælum en einnig markaðsetja þau sem heilsusamleg fæðubótarefni með vísindalega staðfesta virkni.
Samstarfsaðilar Matís – Prokaria í rannsókninni eru Norðurbragð hf., MPF Ísland, Iceprotein, University of Florida og stjórnandi rannsóknarinnar er dr. Hörður G. Kristinsson, deildarstjóri Lífefnadeildar Líftæknisviðs Matís – Prokaria.