Fréttir

Nautnir norðursins – sýningar hefjast í kvöld á RÚV

Sjónvarpsþáttaröðin „Nautnir norðursins“ fer í sýningu á Ríkissjónvarpinu í kvöld kl. 20:05. Matís hefur unnið að gerð þáttana í samstarfi við Sagafilm. Markmiðið með þáttunum er að gefa jákvæða ímynd af matarmenningu og efla matartengda ferðaþjónustu á Íslandi, Grænlandi, Færeyjum og í Noregi.

Í þáttunum verður fornum og hefðbundnum matarvenjum á Íslandi, Grænlandi, Færeyjum og í Noregi gerð skil. Matreiðslumenn frá hverju landi fyrir sig munu jafnframt sýna nýjungar sem þeir framreiða úr staðbundnu hráefni. Vonast er til þess að þættirnir kveiki áhuga almennings og framleiðenda á að prófa sig áfram með nýtingu hráefna á nýstárlegan hátt sem og að nýta hráefni og aukaafurðir sem hafa hingað til ekki verið nýtt.

Norræna eldhúsið hefur vakið talsverða athygli á undanförnum árum og matartengd ferðaþjónusta hefur aukist, ekki síst vegna þess hversu sterk tengsl eru við hefðina þegar staðbundnar fæðu er neytt. Vinsældir nýnorrænnar matarhefðar hafa sannað sig í alþjóðlegu matreiðslukeppninni Bocuse d’Or þar sem norrænu þjóðirnar hafa verið í efstu sætunum síðan árið 2008. Ennfremur var haldin mjög áhugaverð og vel sótt ráðstefna á Selfossi þann 25. júní sl. þar sem 30 nýjar vörur frá Grænlandi, Færeyjum og Íslandi voru kynntar. Ráðstefnan var hluti af formennsku Íslands í norræna ráðherraráðinu á þessu ári. Nánar um verkefnið má finna á vef Nordtic.

Þessi mikli áhugi á norrænni matarhefð gefur framleiðendum tækifæri til að koma vörum sínum á framfæri utan heimalandsins og styrkja þar með matarímynd landsins út á við. Þjóðir á borð við Japan, Ítalíu, Frakkaland og Spán hafa skapað einkar jákvæða ímynd af matarmenningu sinni sem hefur á sama tíma styrkt útflutning matvæla og gert löndin að eftirsóttum ferðamannastöðum. Með því að koma matvælum frá Íslandi, Noregi, Grænlandi og Færeyjum á framfæri mætti stuðla að margþættri virðisaukningu bæði í ferðamanna- og fæðuiðnaði.

Í þáttunum verður villibráð, sjávarfangi, þangi, kryddjurtum o.fl. staðbundnum hráefnum gerð skil. Þá verður einnig fjallað um fornar geymsluaðferðir og hvernig hægt er að nýta þær sem og hráefnið með nýstárlegum hætti.

Alls voru gerðir 8 þættir, tveir helgaðir hverju landi. Þættirnir verða sýndir í Noregi, Finnlandi og Færeyjum, fleiri lönd hafa þegar sýnt þáttunum áhuga og má því vænta frekari dreifingar.

Nánari upplýsingar veitir Gunnþórunn Einarsdóttir hjá Matís.

Facebooksíða þáttarins

IS