Fréttir

Nemendur í meistaranámi óskast – styrkur í boði

Matís, Promens, Thor Ice, Sjávarútvegsklasi Vestfjarða, Eimskip og Samskip eiga í samstarfi í verkefni sem snýr að flutningi ferskfiskafurða í kerum og kössum og eru að leita að tveimur nemendum í meistaranámi eða sem eru á leið í meistaranám.

Um tvö meistaraverkefni er að ræða og er mögulegt umfang þeirra beggja 30–60 ECTS (ein til tvær annir). Verkefnin henta einkum fyrir meistaranema í véla/iðnaðarverkfræði, matvæla- eða viðskiptafræði. AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi (www.avs.is) stendur straum af kostnaði vegna neðangreindra meistaraverkefna.

Verkefni 1-markmið

Hagrænn samanburður mismunandi pakkninga- og flutningsleiða fyrir ferskar fiskafurðir frá Íslandi til markaða í Evrópu og Ameríku. Greiningin tekur tillit til kostnaðar við mismunandi vinnslukælingaraðferðir, pökkunar, flutnings og gæðarýrnunar afurða. Nákvæmt mat á rúmmálsnýtingu kæligáma við flutning í kössum annars vegar og kerum hins vegar er hluti af verkefninu.

Verkefni 2-markmið

Áætla ákjósanlegt magn og gerð (salt- og íshlutfall) ískrapa í 340 L matvælakeri með tilraunum og/eða varmaflutningslíkanagerð með stöðuga fiskhitastigið –1,0 °C að markmiði. Þetta verður framkvæmt fyrir tvö möguleg tilfelli umhverfishita í gámaflutningi kera, þ.e.  –0,5 °C og 3 °C og tvö möguleg upphafsfiskhitastig, þ.e. 0 °C og 5 °C. Felur einnig í sér að finna lágmarks magn og íshlutfall ískrapa, sem nota þarf í ker sem verður fyrir umtalsverðu hitaálagi (hærri umhverfishiti).

Verktími: maí 2014–apríl 2015


Nánari upplýsingar veita Sigurjón Arason, prófessor við HÍ og yfirverkfræðingur Matís (sigurjon.arason@matis.is) og dr. Björn Margeirsson, rannsóknastjóri Promens (bjorn.margeirsson@promens.com).

IS