Fréttir

Nemendur í orkulíftækni við HA í heimsókn

Fyrir stuttu voru tveir meistaranemendur í orkulíftæknifræði við háskólann á Akureyri við vinnu hjá Matís við að raðgreina hitakæra bakteríustofna.

Bakteríustofnarnir sem um ræðir eru úr hverum hér á Íslandi og eru áhugaverðir fyrir þær sakir að þeir framleiða vetni, etanól og metan meðal annarra lokaafurða.

Meistaraverkefni nemendanna eru rannsóknir á örverum úr hverum á Íslandi sem framleiða afurðir sem hægt er að nýta sem orkugjafa. Aðaláherslan er á að leita að bakteríustofnum sem framleiða æskileg efni úr ódýru hráefni sem fellur til á Íslandi eða er auðvelt og arðbært að rækta innanlands til framleiðslunnar. Nemendur þessir heita Hrönn Brynjarsdóttir og Jan Eric Jessen og verður áhugavert að sjá framvindu verkefnis þeirra. Leiðbeinandi þeirra heitir Jóhann Örlygsson.

Hjá Matís er mikil þekking til staðar á hitakærum örverum og gengur eitt verkefnið, sem Matís er lykilþátttakandi í, út á að þróa aðferðir í líftækni til að framleiða etanól úr viðar- og plöntumassa, þ.e.a.s. að nýta lífmassa sem fellur til í að nota sem eldsneyti.

Timbur á eldsneytistankinn
Einn af vaxandi þáttum í starfsemi Matís er líftækni og hvernig beita má þeirri tækni til að þróa nýjar framleiðsluaðferðir og efla þannig nýja þekkingu. Eitt af norrænum verkefnum sem Matís vinnur nú að er einmitt þróun á líftækni til að framleiða etanól úr viðar- og plöntulífmassa. Þetta mætti orða þannig að timbri sé umbreytt til nota á eldsneytistankinn, þ.e. að lífmassinn verði nýttur til eldsneytisframleiðslu en verulegt magn af honum fellur til á Norðurlöndum.

Að verkefninu standa Matís frá Íslandi, Statoil ASA, Wayland AB og SINTEF frá Noregi, INNVENTIA AB frá Svíþjóð, Technical University of Denmark (DTU) og Technical Research Centre of Finland (VIT). Verkefnið fékk öndvegisstyrk frá Norræna ráðherraráðinu í gegnum Nordic Energy sjóðinn.

Verkefnið er mjög fjölþætt og felst meðal annars í að þróa aðferðir til að formeðhöndla lífmassann svo hann nýtist gerjunarlífverum til etanólframleiðslu. Einnig að þróa skilvirka ensímtækni til að brjóta lífmassa niður í gerjanlegar sykrur og gera erfðaendurbætur á gersveppum svo þeir geti sundrað fjölsykrum. Matís mun þróa og endurbæta hitakærar etanólmyndandi gerjunarbakteríur með erfðatækni en bakteríur sem einangraðar hafa verið úr heitum hverum geta oft brotið niður sellulósa á skilvirkan hátt. Hins vegar mynda þessar bakteríur aukaefni, svo sem ediks- og mjólkursýru.

Markmiðið er því að með öflugri hitakærum bakteríum verði unnt að auka etanólframleiðsluna, minnka eða stöðva alveg framleiðslu aukaefna og brjóta niður sellulósa. Endanlegt markmið er að búa til framleiðslukerfi þar sem saman fer niðurbrot á sellulósa og gerjun í etanól í einni líffræðilegri einingu/kerfi.

Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Óli Hreggviðsson hjá Matís.

IS