Á síðasta ári hófst verkefni sem ætlað er að stuðla að aukinni neyslu sjávarafurða, einkum meðal ungs fólks. Nýlega tóku nemendur í Menntaskólanum á Akureyri og Verkmenntaskóla Akureyrar þátt í neytendakönnun, sem er hluti af verkefninu.
Nýlegar kannanir benda til að fiskneysla hér á landi hafi minnkað töluvert á undanförnum árum og mest hjá yngri aldurshópum. Brýnt þykir að sporna við þessari þróun, bæði út frá heilbrigðissjónarmiðum, enda fiskur almennt talinn meinhollur, en ekki síður út frá efnahagsforsendum.
Þó svo mikið sé flutt út af fiski frá Íslandi má ekki gleyma því að markaður innanlands er mikilvægur fyrir íslensk sjávarútvegs- og fiskvinnslufyrirtæki. Ungt fólk í dag er mikilvægur neytendahópur framtíðarinnar og því er mikilvægt að huga að aðgerðum til að snúa þessari þróun við, með markvissri fræðslu, auglýsingum og markaðsetningu.
Markmið verkefnisins, sem nefnist Viðhorf og fiskneysla ungs fólks: Bætt ímynd sjávarafurða er einmitt að stuðla að aukinni neyslu sjávarafurða með neyslukönnunum og kynningarátaki. Sem fyrr segir hófst verkefnið á Rf á síðasta ári og er áætlað að því ljúki árið 2008. Vinna í þeim verkefnum sem unnin voru hjá Rf og öðrum stofnunum sem sameinuðust um áramótin mun halda áfram undir merki Matís.