Í kjölfar frétta sem birst hafa í Iceland Review og í Stundinni á undanförnum dögum, má skilja sem svo að Matís hafi staðið fyrir rannsókninni sem til umfjöllunar er.
Í viðkomandi máli kemur Matís einvörðungu að því að erfðagreina sýni fyrir viðskiptavin, en viðskiptavinurinn stóð að öðru leyti sjálfur að rannsókninni. Matís er fyrirtæki sem selur ýmiskonar þjónustu og ráðgjöf á sviði matvælaframleiðslu, erfðafræði, líftækni sjávarútvegs og landbúnaðar, auk þess að stunda margvísleg matvælatengd rannsóknarverkefni. Þeir sem kaupa mælingar eða greiningar af Matís eru eigendur niðurstaðnanna og það er undir þeim komið sem þjónustuna kaupa hvað þeir gera með niðurstöðurnar, hvort svo sem þjónustan er á formi efnamælinga, erfðagreininga eða örverumælinga svo dæmi séu tekin.
Matís sinnir ekki eftirliti, þó eftirlitsaðilar s.s. Matvælastofnun, Hafrannsóknarstofnun eða heilbrigðiseftirlit kaupi þjónustu af Matís.
Innan fyrirtækisins Matís er öflugt vísinda og þekkingarsamfélag sem byggir á sterkum rannsóknainnviðum og samstarfi til þess að hámarka áhrif fjárfestinga í rannsóknum og nýsköpun, þannig getur Matís aðstoðað viðskiptavini sína við að auka verðmætasköpun, matvælaöryggi og lýðheilsu.