Samtök um landbúnað á Norðurslóðum (e. Circumpolar Agricultural Association, CAA) eru samtök einstaklinga í öllum löndum á Norðurslóðum. Ráðstefnur samtakanna eru haldnar á þriggja ára fresti og verður níunda ráðstefnan haldin í Reykjavík dagana 6. til 8. október 2016.
Viðfangsefni ráðstefnunnar verður:
Hlutverk landbúnaðarins í lífhagkerfi Norðurslóða
Lífhagkerfið (e. Bioeconomy) er byggt á lífrænum auðlindum og hefur athyglin beinst í æ ríkara mæli að þessari nálgun á síðustu árum. Landbúnaðurinn þarf að nýta sér þá athygli sem lífhagkerfið fær því græna lífhagkerfið snýst fyrst og fremst um landbúnað og afurðir hans.
Á ráðstefnunni verður fjallað um svæðisbundna framleiðslu sem styrkir dreifðar byggðir, matvælaframleiðslu á Norðurslóðum, ferðamennsku og nýsköpun sem bregst við breyttum aðstæðum. Sérstök áhersla verður lögð á að að kynna góðan árangur sem hefur náðst á einu svæði og aðrir geta notið góðs af.
Matvælasýning á vegum lokaráðstefnu NordBio áætlunarinnar verður felld inn í dagskrána. Þann 8. október verður farin skoðunarferð þar sem gestir kynnast íslenskum landbúnaði.
Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu rástefnunnar: www.caa2016.com og upplýsingar má líka finna á Facebook síðu ráðstefnunnar.
Ráðstefnan hefur einu sinni áður verið haldin á Íslandi en það var árið 2001. Þá bar ráðstefnan heitið „Legacy and Vision in Northern Agriculture“ og var ætlað að beina athygli að samspili sögu og menningar við undirstöðu landbúnaðarins.
Nánari upplýsingar veitir Ólafur Reykdal hjá Matís.