Annað hvert ár eru haldnar á Norðurlöndum ráðstefnur sem fjalla um skynmat og neytendarannsóknir og hefur Matís tekið þátt í undirbúningi þeirra.
Næsta ráðstefna sem er sú 15. í röðinni verður haldin í Helsinki dagana 22.-23. maí 2013 og ber hún yfirskriftina „Nýjungar í skynmati og hvernig á að ná til mismunandi neytendahópa (Novel sensory approaches and Targeting different consumer groups).
Ráðstefnan er bæði ætluð fagfólki í matvælaiðnaði og vísindafólki á þessu sviði. Áhugi og þátttaka fólks úr bæði stórum og smáum matvælafyrirtækjum á að sækja þessar ráðstefnur hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum, enda um kjörinn vettvang að ræða fyrir iðnaðinn og vísindafólk til að hittast og koma sér upp samskiptaneti á þessu sviði. Búist er við um 100 manns, aðallega frá Norðurlöndunum.
Efni ráðstefnunnar að þessu sinni eru nýjungar í skynmati og hvernig eigi að ná til mismunandi neytendahópa eins og barna, eldra fólk og þeirra sem eru heilsuþenkjandi. Emilía Martinsdóttir, fagstjóri Matís er í undirbúnings- og vísindanefnd ráðstefnunnar. Hún mun halda erindi á ráðstefnunni sem byggt er á niðurstöðum úr norræna verkefninu Auðgun sjávarrétta og er m.a unnið í samstarfi við fyrirtækið Grím kokk. Dr. Kolbrún Sveinsdóttir, fagstjóri á Matís mun halda erindi um fiskneyslu ungs fólks og hvernig megi auka hana. Á ráðstefnunni verða líka nokkur erindi um matvöru sem höfðar til eldra fólks en áhugi á því málefni fer mjög vaxandi á Norðurlöndum og í Evrópu.
Skráning fer fram til 19. apríl. Ráðstefnugjaldið er lægra ef bókað er fyrir 31. janúar 2013. Fólk í matvælaiðnaði hér á landi og aðrir sem áhuga hafa á þessu efni eru hvattir til að skrá þátttöku sína sem fyrst.
Skynmat og skynmatsrannsóknir hafa lengi verið mikilvæg sérsvið á Matís og hefur áherslan í vaxandi mæli beinst að neytendarannsóknum. Matís hefur tekið þátt í mörgum innlendum og erlendum rannsóknarverkefnum varðandi skynmat og gæði matvæla og haldið margvísleg námskeið í skynmati fyrir starfsfólk fiskvinnslufyrirtækja og annarra matvælafyrirtækja. Starfsfólk Matís hefur einnig sinnt kennslu í skynmati og neytendafræði við Matvælafræði- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og í Sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri. Einnig kennir starfsfólk Matís skynmat við Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna.
Nánari upplýsingar Emilía Martinsdóttir hjá Matís.