Uppfærð frétt: Stjórn NASF hefur ákveðið að fresta viðburðinum til 8-10 júní. Frekari fregna verður að vænta hér á heimasíðu Matís í janúar.
Í mars ár hvert, síðastliðin 15 ár, hafa stjórnendur og hagaðilar í sjávarútvegi og fiskeldi flykkst til Bergen til að sitja ráðstefnu North Atlantic Seafood Forum (NASF).
Markhópur þessarar þriggja daga ráðstefnu hefur jafnan verið stjórnendur í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum þ.e. tækjaframleiðendur, markaðsfyrirtæki, bankar, tryggingafélög, ráðgjafafyrirtæki o.s.frv. Þrátt fyrir að kostnaður við þátttöku hafi verið umtalsverður (ráðstefnugjaldið hefur verið um 150.000 ISK + VSK á þátttakanda) hafa á milli 800 og 1.000 manns sótt viðburðinn ár hvert, sem sýnir hversu mikilvæg þessi ráðstefna er fyrir markhópinn. Sökum COVID hefur nú verið ákveðið að NASF21 verði netviðburður, sem gefur tækifæri til að auka fjölda þátttakenda og lækka ráðstefnugjaldið verulega.
Ráðstefnan fer fram dagana 8-10 júní og er búist við að þátttakendur verði a.m.k. 2.500 talsins. Ráðstefnugjaldið er um 45.000 ISK + VSK (290 EUR) á þátttakanda, en svo er magnafsláttur í boði fyrir fyrirtæki sem skrá fleiri þátttakendur. Dagskrá þessa árs er sérlega vegleg, alls verða 130 kynningar í boði og meðal þeirra sem fram koma má nefna Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, Ninu Jensen, framkvæmdastjóra REV Ocean, Jong-Gu Lee, aðstoðarframkvæmdastjóra Dongwong Industries sem er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Suður-Kóreu, Sady Delgado, framkvæmdarstjóra AquaChile, ásamt kynningum frá Yongs, Nutrco, Rabobank, Kontali, Pareto ofl.
Eins og fyrri ár er dagskránni skipt upp í eftirfarandi hluta:
Þann 8. júní fara fram sex málstofur:
- Aqua tech, sem Sintef stýrir
- Marsh Insurance, þar sem tryggingarfyrirtæki eru markhópurinn
- Yong leaders summit, þar sem framtíðarleiðtogar í sjávarútvegi eru markhópurinn
- Málstofa um hafrannsóknir, sem norska Hafrannsóknarstofnunin stýrir
- Málstofa um rannsóknir og nýsköpun í sjávarútvegi í Noregi, sem stýrt er af norskum rannsóknarsjóðum
- Málstofa um alþjóðlegar rannsóknir og nýsköpun í sjávarútvegi.
Dagskránni 9. júní er skipt upp í fjóra hluta:
- Um morguninn eru kynningar almenns efnis fyrir alla þátttakendur í senn, en sá hluti er jafnan hápunktur dagskrárinnar.
- Eftir hádegi er þrjár málstofur sem fara fram samtímis þ.e.
- Fiskeldi
- Hvítfiskur
- Markaðir (Brexit)
Dagskráin 10. júní skiptist upp í fjóra hluta:
- Uppsjávarfiskur
- Markaðir
- Sjálfbærni
- Kynningar á sprotum og nýsköpun
Einn mikilvægasti hluti þess að taka þátt í NASF hefur ávallt verið það tækifæri sem felst í því að safna saman helstu áhrifavöldum í sjávarútvegi á einn stað til að stofna til og viðhalda samstarfi. Góð og trygg viðskiptasambönd byggja jafnan á persónulegum samskiptum og þar hefur NASF gengt mikilvægu hlutverki. Í þetta sinn verður leitast við að mæta þeim þörfum með því að bjóða upp á að tengja aðila saman á örfundum. Mismunandi „pakkar“ eru í boði þegar kemur að slíkum tengingum, en sá „pakki“ sem líklegast er að flestir velji sem áhuga hafa á að nýta þetta tækifæri kostar 500 EUR. Fyrir þann „pakk“ fá fyrirtæki sitt nafn og kynningu upp á „vegginn“ og þá geta allir almennir þátttakendur bókað fund með því fyrirtæki.
Enn eru örfá tækifæri til að komast á mælendaskrá eða til að gerast styrktaraðilar NASF21.
Frekari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson í jonas@matis.is eða í síma 4225107.