Norrænt samstarf er Íslendingum mikilvægt. Hið norræna eldhús er einn vettvangur norræns samstarfs, þar kennir margra grasa. Í síðustu viku greindu Bændasamtök Íslands frá norrænu matarverðlaununum Emblu hvar óskað er eftir tilnefningum í sjö flokka fram til 17. apríl. Tveimur dögum síðar eða 19. apríl renna út frestir til að senda inn verkefnahugmyndir til skrifstofu norræna ráðherraráðsins sem ganga annarsvegar út á mat fyrir æskublóma Norðurlandanna og hinsvegar út á mörkun/ kynningu norrænar matarmenningar og gildum hennar.
Ný norræn matargerð er áætlun undir Norrænu ráðherranefndinni. Markmið áætlunarinnar er að færa hugmyndafræði norrænnar matargerðar inn á heimili og stofnanir á Norðurlöndunum og hvetja til nýsköpunar í vöruþróun á matvælum og staðbundinnar matvælaframleiðslu. Áætlunin vísar í hina nýju norrænu matar stefnuyfirlýsingu frá árinu 2004.
Samtök norrænna bændasamtaka komust að samkomulagi um að efna til norræna matarverðlauna sem bera heitið Embla. Til stendur að Embla verði afhent annað hvert ár, fyrsta afhendingin verður í Danmörku árið 2017 í boði dönsku bændasamtakanna Landbrug & Fødevarer. Mun verðlaunaafhendingin fara fram á ráðstefnu danska umhverfis- og matvælaráðuneytisins „Better Food for More People“ á Copenhagen Cooking í ágúst n.k. Ætlunin er að „hampa þeim sem ekki ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Þeim sem leggja kræsingar á borð okkar allra. Þeim sem leggja allt í sölurnar og storka hinu hefðbundna. Þeim sem glæða hið norræna eldhús lífi og auðga matargerðarlistina eins og hún leggur sig. Þeim sem færa okkur norrænt eldhús á silfurfati svo okkur hungrar öll í meira.“
Norræn matargerð, matarmenning og gildi hennar eru oft á tíðum í hávegum höfð alþjóðlega.
Oft er litið á Norðurlöndin sem einn markað, til að stuðla áfram að jákvæðri þróun og til að laða að fleiri gesti að Norðurlöndum þarf áframhaldandi norrænt samstarf um þróun þekkingar og mörkun norrænnar matarmenningu á alþjóðavettvangi. Leitað er að verkefnum sem byggja á sterku norrænu samstarfi sem leitt geta kynningu nýrrar norrænnar matargerðar.
Jafnframt er auglýst eftir verkefnum sem miða að því að tengja gleði við mat og skapa þekkingu á mat og neyslu og færni við matreiðlsu hjá börnum og ungmennum á Norðurlöndum sem og að vekja áhuga þeirra á norrænum mat.
Áhugasamir aðilar eru hvattir til að láta málin sig varða.