Nú nýlega fór af stað virkilega áhugavert verkefni hjá Matís í samstarfi við Háskóla Íslands, verkefni sem hefur fengið nafnið Nýbylgju bragð. Markmið verkefnisins er að þróa verðmæt heilsusamleg bragðefni úr stórþörungum sem geta komið í stað salts og nýtt sem bragðbætandi einingar þ.e. efni/efnasambönd eða náttúrulegar blöndur þess. Einstakir eiginleikar bragðefnanna verða nýttir til að þróa saltminni og bragðmeiri matvæli.
Væntingar eru um að bragðefnin verði nýtt til að minnka notkun á salti í mat og einnig sem bragðbætandi innihaldsefni fyrir matvæli. Þrívíddar (3D) matvælaprentari verður notaður til að þróa nýjar heilsusamlegar vörur með lágt saltinnihald, flott útlit og gott bragð.
Verkefnið er hluti af meistaraverkefni í Matvæla- og næringarfræði við Háskóla Íslands.
Þess má geta að verkefnið byggir á fyrri verkefnum sem unnin hafa verið hjá Matís; innlendum, norrænum og evrópskum verkefnum.
Verkefnið er styrkt af AVS.