Á fundi í Þjóðmenningarhúsinu í morgun, 14. mars, opnaði Björgvin Sigurðsson, viðskiptaráðherra vefgáttina Leiðakerfi neytenda, en það er sameiginleg vefgátt fyrir allar tegundir neytendamála, óháð því hvaða aðili fer með málin. Vefgáttin var opnuð í tilefni af því að laugardagurinn 15. mars er alþjóðlegur dagur neytenda.
Á nýja vefnum (www.neytandi.is) geta neytendur nálgast upplýsingar og kannað rétt sinn, fengið aðstoð við að bera fram kvartanir og að skjóta málum, þegar við á, til úrlausnar hjá kvörtunarnefndum eða öðrum úrlausnaraðilum – óháð tíma sólarhrings! Þess má geta að á vefgáttinni er sérstakur flokkur helgaður matvælum og þar kemur Matís þó nokkuð við sögu.
Á fundinum ræddi Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, einnig um norrænt hollustumerki fyrir matvæli og talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, kynnti möguleikann á og kostina við að nýta lagaheimild til þess að sýslumenn leiti sátta í ágreiningsmálum neytenda við seljendur vöru og þjónustu.
Eitt af megináherslusviðum Matís er að sinna málum sem snúa að lýðheilsu og matvælaöryggi. Eitt af fjórum sviðum Matís er helgað matvælaöryggi. Sviðinu er skipt upp í þrjár deildir:
Efnarannsóknir, örverurannsóknir og loks ráðgjöf og gagnagrunna.
Matís býður upp á fjölbreyttar örveru- og efnamælingar fyrir viðskiptavini og eigin rannsóknaverkefni.
Matís veitir upplýsingar um öryggi matvæla á vefsíðu sinni. Niðurstöður rannsóknaverkefna um öryggi matvæla eru kynntar í skýrslum og greinum á vefsíðunni. Nýlegar skýrslur sem fjalla um öryggi sjávarafurða (númer 08-07, 44-07, 52-07), áhættumat (17-7) og akrýlamíð (01-08).
Einnig er hægt er að leita að upplýsingum um næringarefni og þungmálma í ÍSGEM gagnagrunninum á vefsíðu Matís. Við áhættumat er nauðsynlegt að hafa upplýsingar um bæði næringarefni og aðskotaefni eins og þungmálma og vega saman áhrif þessara efna.
Matís rekur vefinn Seafoodnet á ensku um öryggi sjávarafurða. Á vefnum eru upplýsingar um aðskotaefni í sjávarafurðum, skýrslur, kynningarefni og tenglar á upplýsingar í öðrum löndum, einkum Norðurlöndum.