Fréttir

Nýstárlegar lausnir á MAKEathon til að auka verðmæti aukahráefnis úr íslenskum sjávarútvegi

Dagana 10. – 18. september hélt Matís MAKEathon nýsköpunarkeppni á Íslandi. Keppnin skiptist í tvær vinnustofur; annars vegar á Vestfjörðum, nánar tiltekið í Bolungarvík, og hins vegar í Reykjavík, Akureyri og Neskaupsstað. Síðarnefnda vinnustofan fór fram á netinu.

MAKEathon á Íslandi er hluti af Evrópuverkefninu MAKE-it! og er styrkt af EIT FOOD. Það felur í sér að ellefu aðilar víðs vegar um Evrópu halda MAKEathon í sínu heimalandi þar sem matvælaframleiðsla hvers staðar er skoðuð sérstaklega.

MAKEathon er nýsköpunarkeppni sem leggur áherslu á að búa eitthvað til með höndunum til þess að mæta ákveðinni áskoruninni eða vandamáli. MAKEathon á Íslandi hafði það markmið að finna lausnir til að auka verðmæti aukahráefnis úr sjávarútvegi til að gera vinnsluna sjálfbærari.

Þátttakendur voru alls 50 talsins og mynduðu 10 lið. Nítján samstarfsaðilar, fyrirtæki og menntastofnanir, komu að verkefninu. 


Snakk úr hliðarafurðum

Þáttakendur á Vestfjörðum mættust í Bolungarvík, en þeir komu allir frá Háskólasetri Vestfjarða. Nemendurnir höfðu þegar verið skimaðir fyrir COVID-19 og öllum sóttvarnarreglum var fylgt. Liðin í Bolungarvík fengu laxabein til að vinna með og höfðu aðgang að iðnaðareldhúsi í Djúpinu þar sem viðburðurinn fór fram. Gunnar Þórðarsson, verkefnastjóri hjá Matís og Gunnar Ólafsson hjá Djúpinu sáu til þess að allt færi þar fram samkvæmt áætlun og nutu stuðnings Arctic Fish, Eðalfiski og Vestfjarðastofu. Þórarinn Gunnarsson frá Fablab Ísafirði hjálpaði einnig til við vöruþróunina. Í dómnefndinni sátu Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkur, Sigríður Kristjánsdóttir og Þórkatla Soffía Ólafsdóttir frá Vestfjarðastofu. Liðið SOS – Salmon on Seaweed sigraði keppnina með nýstárlegu snakki sem líkist pepperoni nema munurinn er að vara SOS er gerð úr fiski . Hugmynd hópsins þótti bæði framsækin og trúverðug. 

Vistvænn pappír sem vex

MAKEathon í Reykjavík, Akureyri and Neskaupstaður fór hins vegar fram á netinu þar sem 21 þátttakandi mættist á Zoom fjarfundi. Þar fengu þátttakendur m.a. þorskabein og fiskiroð, auk sérstaks verkfærakassa til að vinna frumgerðina. Þeim bauðst líka að heimsækja Fablab í Reykjavík eða á Akureyri til að fræðast um það hvernig á að þróa prótótýpu.

MAKEathon á Íslandi lauk svo 18. september síðastliðinn. Kristján Skarphéðinsson, ráðuneytisstjóri Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, tók þátt í lokaathöfninni og talaði um mikilvægi sjálfbærrar auðlindanýtingar, nýsköpunar og frumkvöðlastarfssemi í sjávarútvegi. Hann tilkynnti svo sigurvegara keppninnar sem dómnefnd, skipuð af Sunnu Höllu Einarsdóttur (Icelandic Startups), Rannveigu Björnsdóttur (Háskólinn á Akureyri) og Benedikt Stefánssyni (Egersund), valdi eftir mikla umhugsun.

Sigurvegari keppninnar var liðið Otoseed sem er skipað einstaklingum úr ólíkum áttum, með fjölbreytta bakgrunna, en þeir þekktust ekki innbyrðis fyrir keppnina. Sigurliðið kynnti lausn sem nýtir ekki aðeins hliðarafurðir úr sjávarútvegi, heldur einnig annars konar afganga, t.d. frá kaffi. Um er að ræða sérstakan pappír sem inniheldur hliðarafurðir úr fiski sem hægt er að rækta fræ upp úr. Það er hægt að skoða verkefnið þeirra á vefsíðu liðsins hér.

Við vonumst til að endurtaka leikinn og við hvetjum áhugasama samstarfsaðila sem hafa áhuga á að halda MAKEathon með okkur í framtíðinni að hafa samband.

IS