Fréttir

Opni háskólinn í HR og Matís í samstarf um Iceland School of Fisheries

Skrifað undir samstarfssamning um nám fyrir erlenda stjórnendur í alþjóðlegum sjávarútvegi í HR

Opni háskólinn í HR og Matís, í samvinnu við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og aðrar háskóla- og rannsóknastofnanir á Íslandi, hefur sett á fót yfirgripsmikið nám fyrir erlenda stjórnendur og sérfræðinga í sjávarútvegi. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík og Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís skrifuðu undir samstarfssamning um stofnun Iceland School of Fisheries í HR í gær.

Matis_undirskrift_HR_web
Sandra Kr. Ólafsdóttir, verkefnisstjóri ISF hjá Opna háskólanum í HR, Guðmunda Smáradóttir, forstöðumaður Opna háskólans í HR, Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís, Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, Páll Jensson, prófessor við tækni- og verkfræðideild HR, Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, Páll Gunnar Pálsson, verkefnastjóri hjá Matís og Kristján Vigfússon, forstöðumaður MBA náms í HR.

Íslenskur sjávarútvegur er þekktur fyrir hágæðaafurðir og ábyrgar fiskveiðar. Í Iceland School of Fisheries er markmiðið að miðla dýrmætri þekkingu íslenskra sérfræðinga á þessu sviði. Í náminu verður m.a. fjallað um stjórnun í sjávarútvegi, vinnslu sjávarafurða, markaðssetningu og nýjustu þróun í tækni og nýsköpun í fiskiðnaði. Ennfremur verður fjallað um fiskveiðistjórnun, regluverk, rannsóknir og eftirlit í sjávarútvegi.

„Í Háskólanum í Reykjavík höfum við mikla reynslu af uppbyggingu alþjóðlegs náms á sviðum þar sem Íslendingar búa yfir sérþekkingu. Í uppbyggingu á slíku námi skiptir samstarf við leiðandi íslensk fyrirtæki og stofnanir mjög miklu máli og við erum þess vegna mjög ánægð með þennan samning við Matís,“ sagði Ari Kristinn Jónsson, rektor HR. „Við höfum þegar fundið fyrir miklum áhuga erlendis frá og við vonumst líka til þess að íslensk fyrirtæki sjái sér hag í því að bjóða erlendum viðskiptavinum og samstarfsaðilum á námskeið Iceland School of Fisheries til að sækja sér sérfræðiþekkingu um öflugan og sjálfbæran sjávarútveg.“

Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, leggur áherslu á að samstarfsvettvangur Matís og Háskólans í Reykjavík falli mjög vel að starfsemi Matís enda sé eitt markmiða Matís að koma að menntun aðila innan sjávarútvegsins hvort heldur sem er á Íslandi eða erlendis. Undanfarin ár hefur Matís tekið stór skref í auknu erlendu samstarf og því sé það mikið tilhlökkunarefni að taka þátt í með HR að byggja upp alþjóðlegt, öflugt stjórnendanám, fyrir aðila í sjávarútvegi. „Með þessu eflum við þekkingu þeirra sem fara höndum um hið mikilvæga hráefni sem fiskurinn er og tryggjum þannig aukin gæði sem skila sér í hærra verði til þeirra þjóða sem veiðarnar stunda,“ segir Sveinn. 

Í Iceland School of Fisheries verða í haust kennd þrjú vikulöng námskeið og koma leiðbeinendur úr íslensku atvinnulífi og akademíu. Meðal fyrirlesara má nefna Svein Margeirsson, forstjóra Matís; Þór Sigfússon, framkvæmdastjóra  Sjávarklasans; Guðbjörgu H Guðmundsdóttur, verkefnastjóra nýsköpunar hjá Marel; Eggert Benedikt Guðmundsson, fyrrum forstjóra Granda; Daða Má Kristófersson, forseta félagsvísindasviðs HÍ og Bjarna Má Magnússon, lektor við Lagadeild HR. Einnig verður farið í heimsóknir til íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og stofnana sem starfa á sviði sjávarútvegs.

Nánari upplýsingar veita:

  • Eiríkur Sigurðsson, forstöðumaður markaðs- og samskiptasviðs hjá HR  í síma 859 5117, netfang eirikursig@hr.is
  • Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís í síma 858 5111, netfang steinar@matis.is

IS