Fréttir

Orðspor íslensks sjávarútvegs veigamikil forsenda World Seafood á Íslandi

Það er sjálfsagt margt sem stuðlaði að því að það tókst að fá þessa eftirsóttu ráðstefnu hingað til lands. Það var farið að vinna í því, að undirlagi Sveins Margeirssonar forstjóra Matís, fyrir nokkrum árum til að koma Íslandi betur á framfæri á þessum mikilvæga vettvangi.

„Ég hygg að orðspor íslensks sjávarútvegs, þar sem lagt er upp úr sjálfbærum veiðum, fullnýtingu sjávarfangs og tækniþróun, sé veigamikil forsenda þess að menn vildu koma með World Seafood ráðstefnuna hingað,“ segir Þóra Valsdóttir, ráðgjafi hjá Matís, sem stýrir undirbúningi ráðstefnunnar.

Tækni og markaðsmál

Að sögn Þóru var World Seafood ráðstefnan sett á laggirnar árið 1969 af Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO). Ráðstefnuhaldið lá niðri í nokkur ár þar til IAFI, alþjóðleg samtök fag-og eftirlitsaðila í fiskiðnaði, tóku við henni árið 2006 og hafa þau haldið hana síðan á tveggja ára fresti. FAO og Iðnaðar- og þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNIDO) hafa enn mikil ítök í ráðstefnunni og eru með fulltrúa í Vísindaráði hennar, sem ákveður áherslur ráðstefnunnar hverju sinni. Í ráðinu sitja einnig fulltrúar IAFI og umsjónarlandsins hverju sinni. Auk fulltrúa Matís sat í ráðinu að þessu sinni fulltrúi frá Sjávarútvegsskóla háskóla Sameinuðu þjóðanna sem og fulltrúi eins af styrktaraðilum ráðstefnunnar, AG Fisk, sjóðs Norrænu ráðherranefndarinnar. „Í ár höfum við lagt áherslu á að tengja ráðstefnuna betur við sjávarútvegsfyrirtæki og það sem er að gerast í tækni- og markaðsmálum fisk- iðnaðarins og það má sjá þá áherslu endurspeglast í dagskránni,“ segir Þóra.

Um það bil 150 manns, alls staðar að úr heiminum, flytja fyrirlestra og stýra málstofum á ráðstefnunni. Hún stendur yfir í tvo og hálfan dag og er sett þannig upp að fyrstu tveir dagarnir hefjast með sameiginlegri málstofu fyrir alla raðstefnugesti, þar sem tónninn er sleginn af aðalfyrirlesurum dagsins. Síðan greinist ráðstefnan í þrjár samhliða málstofur, þar sem tekin eru fyrir þrjú mismunandi málefni, sem eru keyrð samhliða. Þannig geta ráðstefnugestir valið það sem þeim finnst áhugaverðast úr 9 málstofum, hvorn dag. Síðasta daginn er síðan ein sameiginleg málstofa.

Að sögn Þóru er aðkoma Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna mjög öflug að þessu verkefni í tilefni af 20 ára afmæli skólans. Býður hann m.a. 50 manns að sækja ráðstefnuna hingað til lands og eru þar á meðal bæði fyrrverandi og núverandi nemendur skólans.

Ávarp forseta Íslands

Meðal helstu fyrirlesara ráðstefnunnar nefnir Þóra þá Ray Hillborne, prófessor við Washington háskóla, sem hefur rannsakað mikið sjálfbærar veiðar og umhverfismál, John Bell frá framkvæmdastjórn ESB, sem mun fjalla um áhrif tæknibreytinga í evrópskum sjávarútvegi og Lynette Kucsma, einn af hönnuðum fyrsta matvælaprentarans. Hún nefnir einnig Vilhjálm Vilhjálmsson, forstjóra Granda, sem mun ræða um fjárfestingar í sjávarútvegi, Anthony Wan, upphafsmann Gfresh, stærsta stafræna markaðstorgs Kína fyrir sjávarafurðir. Þá er einnig gert ráð fyrir innleggi frá Alþjóða bankanum, auk þess sem forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, mun ávarpa ráðstefnuna.

Aðspurð hvernig Matís fjármagni ráðstefnuhaldið segir Þóra að ráðstefnan og Matís njóti þess að eiga góða bakhjarla. Arion banki er aðalstyrktaraðili ráðstefnunnar en aðrir stórir  styrktaraðilar eru Brim, HB Grandi, Marel, Norræna ráðherranefndin (AG Fisk sjóðurinn), Íslandsstofa, Sjávarútvegsskóli háskóla Sameinuðu þjóðanna og Icelandic.

Sjávarútvegsráðherrar við Atlantshaf funda

Á sunnudeginum fyrir ráðstefnuna verða FAO, IAFI og Sjávarútvegsskóli háskóla Sameinuðu þjóðanna með málstofur í húsakynnum Matís. Að þeim loknum býður Matís öllum ráðstefnugestum til móttöku. Á mánudagskvöldi verður Arion banki gestgjafi ráðstefnugesta og á þriðjudag verður samkoma í tilefni af 20 ára afmæli Sjávarútvegsskóla háskóla Sameinuðu þjóðanna þar sem meðal annars verða veittar viðurkenning af IAFI, þar á meðal fyrir besta veggspjaldið.

Þá getur Þóra þess að í tengslum við ráðstefnuna muni sjávarútvegsráðherrar frá nokkrum löndum við Atlantshaf koma hingað til lands og funda með sjávarútvegs- ráðherra um fiskveiðar og samstarf í sjávarútvegi. Þeir munu sækja hluta ráðstefnunnar og heimsækja einnig í framhaldinu sjávarútvegssýninguna í Kópavogi.

IS