Einar K. Guðfinnsson landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra skálaði í bóðbergsdrykk og gæddi sér á fjallakonfekti, sem var í boði í upphafi ráðstefnu Matís, Matur og framtíð, í dag. Á ráðstefnunni er leitast við að svara spurningum á borð við hvers vegna grænmeti sé hollt, hvort þorskeldi eigi framtíð fyrir sér á Íslandi, hvers vegna fólk vill ekki stressaðan eldisfisk og hvort fólk viti yfirhöfuð hvaðan maturinn þeirra kemur.
Þróttur og athafnagleði
Ráðherra sagði meðal annars í ræðu sinni á ráðstefnunni að það væri mjög
ánægjulegt að hafa orðið vitni að þeim þrótti og athafnagleði sem einkennt hefur starfsemi Matís frá fyrsta degi. “Ekki svo að skilja að það hafi á nokkurn hátt komið á óvart. Síður en svo. Vitað var að þarna væri saman komið dugmikið fólk með yfirburða þekkingu á sínu sviði og því voru auðvitað bundnar miklar vonir við afraksturinn. Þær væntingar hafa ekki brugðist. Hvert verkefnið á fætur öðru hefur líka skilað áhugaverðum niðurstöðum sem oft og tíðum vekja athygli,” sagði ráðherra.
Öflugt bakland innlendrar matvælaframleiðslu
Þá kom fram í máli ráðherra að það væri afar mikilvægt að á Íslandi starfi öflugt fyrirtæki á sviði matvælarannsókna, sem væri í stakk búið til að takast á við auknar kröfur um öryggi og heilnæmi og væri um leið í forystuhlutverki við að styðja við og ýta undir nýsköpun í matvælaframleiðslu landsmanna.
„Það var von okkar með stofnun fyrirtækisins að það gæti orðið öflugt bakland innlendrar matvælaframleiðslu og tryggt aðgengi afurða okkar að verðmætustu matvælamörkuðum heims. Matís vinnur jafnframt markvisst að því að byggja upp öfluga starfsemi víðs vegar um landið um leið og gengið er til samstarfs við innlenda og erlenda háskóla og rannsóknastofnanir. Það hefur því mikið gerst á þessum tíu mánuðum sem Matís hefur starfað og lofar góðu um framhaldið.“