Fréttir

Rannsóknir á Listeria monocytogenes hjá Matís

Tengiliður

Halla Halldórsdóttir

Gæða- og öryggisstjóri og persónuverndarfulltrúi

halla.halldorsdottir@matis.is

Örverurannsóknastofur Matís, bæði í Reykjavík og Neskaupstað, hafa frá 2007 rannsakað margskonar sýni gagnvart Listeria bakteríum. Listeria monocytogenes er helsti sjúkdómsvaldur Listeria fjölskyldunnar og veldur sjúkdómi sem kallast„Listeriosis“. Einkennin geta verið misalvarleg, allt frá flensueinkennum til heilahimnubólgu í ungbörnum, blóðeitrun og jafnvel fósturlát hjá þunguðum einstaklingum. Undanfarin ár hafa tvö til fimm tilfelli greinst á Íslandi á ári, en árið 2024 greindust fleiri tilfelli, samtals sjö.

Listeria bakteríur finnast víða í náttúrunni, bæði almennt í umhverfinu (t.d. í jarðvegi og plöntum) og einnig í þörmum manna og dýra. Listeria útbreiðslan er svo mikil að mengun unnra matvæla er nánast óhjákvæmileg. Þess vegna er þunguðum einstaklingum og öðrum einstaklingum í áhættuhópum gjarnan ráðlagt að sneiða framhjá réttum eins og t.d. reyktum og gröfnum laxi, sushi/sashimi sem inniheldur hráan fisk, kæfu, ákveðnum gerðum af ostum – m.a. brie og camembert – og kjötáleggi eins og t.d. skinku þar sem Listeria tegundir hafa ítrekað fundist í gegnum tíðina.

Frá stofnun Matís höfum við rannsakað rúmlega 13.000 sýni fyrir Listeria. Sýnin eru oftast matvæli, en ennig er hægt að rannsaka svokölluð stroksýni til að kanna hvort Listeria sé til staðar á yfirborði eða í matvælaframleiðslubúnaði. Slíkar rannsóknir geta aðstoðað matvælaframleiðendur við að kanna hvort nægilega vel sé staðið að þrifum, en Listeria á það til að leynast í skúmaskotum og getur vaxið við mjög fjölbreyttar aðstæður.

Matís starfar sem tilvísunarrannsóknastofa (National Reference Laboratory) Íslands hvað varðar Listeria monocytogenes. Lögbundið hlutverk og helstu skyldur tilvísunarrannsóknastofa eru margvíslegar, m.a. þátttaka í þróun og sannprófun mæliaðferða, og að veita lögbærum yfirvöldum vísindalega og tæknilega aðstoð.

Nýleg samantekt frá ANSES, European Union Reference Laboratory (EURL) fyrir Listeria monocytogenes sem kallast: „Bibliographical review on Timing for Surface Sampling in Food Processing Environments to Detect Listeria monocytogenes“ undirstrikar að stöðugt þarf að vera á verði gagnvart L. monocytogenes í matvælaframleiðslu, og nauðsynlegt kann að vera að uppfæra leiðbeiningar um hvenær í matvælaframleiðsluferlinu best sé að taka sýni til þess að auka líkur á áreiðanlegum niðurstöðum.

Á vefsíðu Matvælastofnunar er að finna fróðleik um Listeria og almennar ráðleggingar til að minnka líkur á smiti.

IS