Fréttir

Reykjagarður velur Matís

Reykjagarður, framleiðandi Holta kjúklings, hefur gert eins árs samning við Matís (Matvælarannsóknir Íslands) um mælingar á sýnum vegna öryggis- og gæðaeftirlits fyrirtækisins. Um er að ræða lögbundnar mælingar á Salmonella og Campylobacter í saursýnum frá kjúklingaeldishópum. Einnig verður safnað sýnum frá öðrum búum sem láta slátra alifuglum hjá Reykjagarði.

Reykjagarður selur Holta vörur sínar til verslunarkeðja, veitingahúsa, skyndibitastaða og mötuneyta.

Sýni frá Reykjagarði verða rannsökuð á Matvælaöryggissviði Matís. Helstu rannsóknaverkefni Matvælaöryggissviðs eru á sviði örveru- og efnarannsókna á matvælum, fóðri og umhverfi. Örverurannsóknir taka til flestra mikilvægustu sýkla sem fundist geta í matvælum. Á Matvælaöryggissviði er markvisst unnið að því að auka samvinnu við erlendar rannsóknastofnanir og fyrirtæki í gegnum alþjóðleg rannsókna- og þróunarverkefni.

„Rannsóknastofur Matís eru faggiltar og geta veitt þjónustu á breiðu sviði örveru- og efnamælinga. Fyrirtækið leggur áherslu á skilvirka og áreiðanlega þjónustu og veitir viðskiptavinum hagstæða þjónustusamninga þar sem sérstaklega er tekið tillit til umfangs verkefna sem samið er um,“ segir Franklín Georgsson sviðsstjóri Matvælasviðs Matís.

IS