Fréttir

Rf tekur þátt í Vísindavöku Rannís 2006

Föstudaginn 22. sept. stendur Rannís fyrir s.k. Vísindavöku – – stefnumóti við vísindamenn í Listasafni Reykjavíkur við Tryggvagötu. Rf verður með og ætlar að kynna hvernig hægt er að nota skynfærin í vísindum.

Eins og fram kemur á vef Rannís er markmiðið með Vísindavökunni að vekja áhuga almennings á vísindum og auka vitund um starf vísindamanna og mikilvægi þeirra.

Vísindavakan verður sem fyrr segir haldin föstudaginn 22. september og stendur frá kl. 18 – 21. Vísindavakan verður með áþekku sniði og í fyrra, en þá tóku þátt vísindamenn frá fyrirtækjum, rannsóknastofnunum og háskólum og um 700 gestir komu í heimsókn.

Á Vísindavökunni verður áhersla lögð á að setja vísindamanninn sjálfan í forgrunninn með því að gera vísindafólkið sýnilegt og aðgengilegt almenningi. Á vökunni fær vísindafólk tækifæri til að koma rannsóknum sínum og niðurstöðum á framfæri á auðskiljanlegan og skemmtilegan hátt enda á Vísindavakan á að höfða til almennings, jafnt ungra sem aldna.

Yfirskrift kynningar Rf verður „Skynfærin sem mælitæki í vísindum“ og verður þar m.a. kynnt skynmat, en í skynmati eru skynfæri mannsins, þ.e. sjón-, lyktar-, bragð-, heyrnar- og snertiskyn notuð til að meta gæði matvæla. Einnig verður kynnt verkefni sem Rf hefur unnið að í samvinnu við fleiri aðila og nefnist Viðhorf og fiskneysla ungs fólks: Bætt ímynd sjávarafurða.

Ókeypis er á Vísindavökuna og aðgangur öllum heimill og er ástæða til að hvetja fólk til að kíkja í Listasafn Reykjavíkur n.k. föstudagskvöld.

IS