Fréttir

Roð nýtt í verðmætar afurðir

Matís hefur ásamt sprotafyrirtækinu Codland unnið að verkefnum þar sem markmiðið er að nýta roð í verðmætar afurðir.

Í verkefninu Lífvirk efni úr roði sem styrkt er af Tækniþróunarsjóði Rannís er markmiðið að kanna hvort efni sem finnast í roði hafi lífvirkni, svo sem blóðþrýstinglækkandi eiginleika eða geta komið í veg fyrir kölkun á brjóskfrumum. Verkefnið hófst árið 2015 og er til tveggja ára.

Kollagen er að verða sífellt vinsælla sem virka efnið í ýmsum neysluvörum en rannsóknir benda til að tengsl séu á milli reglulegar neyslu efnisins og jákvæðra áhrifa á húð og liði.  Heimsmarkaður fyrir fæðubótarefni sem innihalda kollagen er stór og þá aðallega unnið úr svínum. Áætlanir gera ráð fyrir aukinni eftirspurn fyrir kollagenpeptíðum sem unnið eru úr villtum fiski  og er því hér um tilvalið tækifæri að ræða fyrir íslenska framleiðslu.

Verkefnið Vatnsrofið kollagen úr aukahráefni fiskvinnslu sem styrkt er af Norrænu Nýsköpunarmiðstöðinni er unnið í samstarfi við norska fyrirtækið Biomega, danska tækniháskólann (DTU) og Biosustain einnig í Danmörku ásamt Matís og Codland. Í því verkefni er markmiðið meðal annars að þróa ný ensím til að vinna kollagen úr aukahráefni frá hvítum villtum fiski svo sem þorski og feitum fiski eins og laxi.

Nánari upplýsingar veitir Margrét Geirsdóttir hjá Matís.

Frá fundi í verkefninu „Vatnsrofið kollagen úr aukahráefni fiskvinnslu“ í Noregi í október 2016. Peter Kamp Busk DTU, Hemanshu Mundhada Biosustain, Margrét Geirsdóttir Matís, Alex Toftgård Nielsen Biosustain, Davíð Tómas Davíðsson Codland, Lene Lange DTU og Jan Arne Vevatne Biomega.

Tómas Þór Eiríksson framkvæmdastjóri Codland og Oddur Már Gunnarsson Matís undirrita samstarfssamning milli fyrirtækjanna.

Hluti þeirra starfsmanna og nema sem komið hafa að vinnu við kollagenverkefnin á fundi á Sauðárkróki í Maí 2016. Frá vinstri til hægri:  Dagný Björk Aðalsteinsdóttir MS nemi HÍ, Maxime Clays frá Belgíu, Yonathan Souid frá Frakklandi, miðjuröð: Margrét Geirsdóttir Matís, Eva Kuttner Matís Sauðárkróki, Thomas Degrange Frakklandi, fremsta röð Hilma Eiðsdóttir Bakken, Margrét Eva Ásgeirsdóttir og Guðrún Kristín Eiríksdóttir Matís Sauðárkróki, Rodrigo Melgosa frá Spáni.

Hráefni – Þorskroð

Gelatín úr roði

Peptíð úr kollageni úr roði – leynist þar lífvirkni?

IS