Fréttir

Saltfisksvindl

Saltfiskframleiðendur hér á landi hafa lengi grunað að saltaðar þorskafurðir frá Noregi geti verið ranglega merktar sem íslenskar á mörkuðum í Suður-Evrópu.

Markaðsstaða íslenskra saltfiskafurða hefur um langa tíð verið mjög sterk í Suður-Evrópu, sérstaklega á Spáni og Portúgal. Á þessum mörkuðum hafa íslenskar afurðir ákveðna sérstöðu og er verð fyrir Íslenskan saltfisk almennt hærra en fyrir salfisk frá öðrum svæðum. Vegna þessara grunsemda var ákveðið að ráðast í rannsókn til að kanna uppruna saltfisks sem merktur er sem íslenskur á mörkuðum á Spáni og Portúgal.

Til að geta sannreynt uppruna saltfiskafurða var þróuð erfðafræðileg aðferð til að greina megi á milli þorsks frá Íslandsmiðum og þorsks sem er veiddur er við Noregsstrendur og í Barentshafi. Þá var saltfiskafurðum safnað í Barcelona, Bilbao, Porto, Lissabon og Aveiro. Til þess að saltfisksýni væri samþykkt í rannsóknina þurfti að fylgja honum fullyrðing þess efnis að um íslenska afurð væri að ræða, annað hvort á merkingu eða staðfestingu frá fisksala. Ekki var nóg að fiskurinn væri sagður frá Norður Atlantshafi. Þá var einungis safnað sýnum af fullunnum saltfiski sem markaðssettur var sem þorskur (cod) eða bacalao, en einnig mátti afurðin vera útvatnaður saltfiskur. Safnað var alls 266 sýnum á fiskmörkuðum, stórmörkuðum og í sælkeraverslunum.

Niðurstöður þessarar rannsóknar gefa til kynna að nokkuð sé um saltfisksvindl, þar sem 44 sýnanna, eða 16.5%, reyndust vera af Barentshafsþorski.

Er hér um mikið hagsmunamál að ræða fyrir íslenska saltfiskframleiðendur þar sem verið er að misfara með hið góða orðspor sem fer af íslenskum saltfiski og það samkeppnisforskot sem íslenskir framleiðendur hafa. Þá er einnig hætta á að Barentshafsþorskur sem seldur er sem íslenskur saltfiskur geti skaðað ímynd okkar góðu afurða, þar sem gæðin eru einfaldlega ekki þau sömu. Frekar má fræðast um rannsóknina og niðurstöður hennar í skýrslu sem nálgast má hér.

Rannsóknaverkefnið var styrkt af Matvælasjóð.

IS