Matís býður starfsmönnum sínum upp á samgöngusamning sem felst í að þeir fá greitt fyrir að nota vistvænan ferðamáta á leið sinni til og frá vinnu.
Í vor gafst starfsmönnum Matís kostur á að skrifa undir samgöngusamning og fá greitt frá fyirtækinu fyrir að ganga, hjóla eða fara með strætisvögnum til og frá vinnu. Greiðir fyrirtækið þá sömu upphæð og strætókort kostar á mánuði, hvort sem starfsmaður nýtir sér strætó eða velur annan vistvænan ferðamáta.
„Verkefnið gekk bara virkilega vel. Það tóku mun fleiri þátt í þessu en við bjuggumst við. Hjá Matís starfa um 100 manns og um 45 manns tóku þátt í þannig að þetta er bara mjög gott þáttökuhlutfall,” sagði Jón Haukur Arnarsson mannauðsstjóri hjá Matís.
Jón segir að ávinningurinn fyrir fyrirtækið sé margvíslegur þótt beinn fjárhagslegur ávinningur sé kanski ekki augljós.
„Megin ávinningurinn er ánægt starfsfólk og það kemur fram á margvíslegan hátt, til dæmis er þetta tímasparnaður fyrir fólk, það er búið að taka út sína heilsurækt og þarf ekki að fara á líkamsræktastöð eftir að það kemur heim. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að veikindadögum fækkar með heilsueflingu og það er náttúrulega beinn hagur fyrir fyrirtækið,” sagði Jón Haukur.
Jón Haukur segir að áfram verði boðið upp á samgöngusamninga hjá Matís en upphaflega hafi hugmyndin komið frá Umhverfisráðuneytinu. Þar fengust þær upplýsingar að síðan þá hefðu fjölmörg önnur ráðuneyti og ríkisstofnanir tekið upp sama hátt.
Frétt af www.ruv.is.
Nánari upplýsingar veiti Jón Haukur Arnarsson.