Nú fer senn að ljúka samnorrænu verkefni um fiskmjöl og lýsi. Meginmarkmið verkefnisins var að skilgreina stöðu þekkingar á fiskmjöli með það fyrir augum að varpa ljósi á það hvar frekari rannsókna er þörf. Niðurstöður verkefnisins geta nýst bæði iðnaðinum og rannsóknar-samfélaginu sem vegvísir til framfara. Verkefnið var unnið með samtökum fiskmjölsframleiðenda í Evrópu EU-fishmeal, DTU Food&Aqua í Danmörku, Nofima í Noregi og hlaut styrk frá Norrænu Ráðherranefndinni (AG-fisk).
Að verkefninu komu fyrirtæki á borð við FF Skagen í Danmörku, Havsbrún í Færeyjum og Triple Nine í Noregi. Marvin Ingi Einarsson, Iðnaðarverkfræðingur hjá Matís sá um verkefnastjórn.
Megin niðurstöður verkefnisins gefa til kynna að gæði hráefnis, fiskmjöls og lýsis séu enn ekki nægilega vel skilgreind. Áherslan hefur hingað til verið mest á efnainnihald fiskmjöls með minni áherslu á jákvæð heilsufarsleg áhrif þess að notast við fiskmjöl og lýsi í fóður. Einnig er þörf á að tengja betur saman áhrif hráefnismeðhöndlunar og áhrif vinnsluferla á bæði næringarlega og eðlislega þætti.
Verkefnið stóð fyrir vinnustofu í Kaupmannahöfn þar sem komu saman fjölmargir úr fiskimjölsiðnaðinum í Evrópu og sérfræðingar á þessu sviði. Ein af niðurstöðum fundarins var sú að til að styrkja frekar markaðsstöðu og samkeppnishæfni framleiðenda þá þarf fiskmjölsiðnaðurinn að öðlast betri þekkingu á þörfum viðskiptavina sinna og hvað það sé sem kaupendur eru raunverulega að leitast eftir. Koma þarf á fót betri samskiptaleiðum milli aðila í virðiskeðjunni allt frá fiskmjölsframleiðendum til neytenda. Mikilvægt er að koma á fót áætlun um hvernig samskiptum milli aðila skuli háttað og í framhaldi móta skýra stefnu í rannsóknum.