Fréttir

Samspil fitu og litarefnis í fóðri á vöxt og gæði íslenskrar bleikju

Lokið er AVS verkefninu „Samspil fitu og litarefnis í fóðri á vöxt og gæði íslenskrar bleikju “ og hefur lokaskýrsla verkefnisins nú verið gefin út. Markmið verkefnisins voru tvíþætt a) að meta áhrif fituinnihalds í fóðri á vöxt, fóðurnýtingu og gæði bleikju, b) að finna hagkvæmustu leið við notkun og nýtingu litarefnis í fóðri og samspil þess við fituinnihald í fóðri og fiski. En með því yrði hægt að ná fram umtalsverðum sparnaði í bleikjueldi.

Í verkefninu voru framkvæmdar langtíma vaxtartilraunir með bleikju, þar sem rannsökuð voru áhrif fóðurs á vöxt og mikilvæga gæðaþætti hjá bleikju, fitusamsetningu og holdlit. Fyrsta markmið þessarar rannsóknar var að kanna áhrif mismunandi fitugjafa og fituhlutfalls í fóðri á vöxt og efnasamsetningu í flökum. Annað markmiðið var að kanna áhrif mismunandi litarefna í fóðri og mismunandi litarefnafóðrunar, á framleiðslutíma, á holdlit í flökum. Verkefnið var unnið í samstarfi Íslandsbleikju, Matís, Háskólans á Hólum og Fóðurverksmiðjunnar LAXÁR.

Tilraunirnar sýndu fram á að mismunandi fituhlutfall fóðurs og ólík fituhráefni höfðu ekki áhrif á vöxt, vaxtarhraða, fóðurneyslu, fóðurnýtingu FCR eða nýtingarþætti við slátrun. Fituhlutfall fóðurs endurspeglaðist hins vegar í fituinnihaldi flaka og fitusýrusamsetningin í fóðrinu endurspeglaðist í flestum tilfellum glögglega í fitusýrusamsetningu flakanna. Ólík fituhráefni og fituhlutföll í fóðri höfðu lítil áhrif á sýnilegan holdlit í flökum. Meiri litabreytileiki varð greinilegri þegar litarefni var efnagreint í flökum.

Greining á styrk litarefna í tilraunafóðri sýndi erfiðleika við framleiðslu fóðurs með nákvæmt litarefnainnihald, samkvæmt áætlun og fóðuruppskriftum, óháð litarefnategundum eða í bættu magni. Verulegt tap varð á fóðurlit, í fóður framleiðslu, þegar notað var lífrænt litarefni, og virtist þetta tap óháð íblöndun. Niðurstöður benda til þess að taka þurfi tillit til þessara vinnslutapa (u.þ.b. 30%) til að tryggja að fiskurinn fái nægt litarefni til eðlilegrar holdlitunar.

Mismunandi litarefni og mismunandi styrkur litarefnis hafði engin teljandi áhrif á vaxtarhraða fóðurnýtingu eða næringarinnihald fisksins.

Lítill munur greindist í sýnilegum lit (Salmofan), en flakalitur mældur með Minolta greiningu sýndi meira samband í lit flaka og étinna litarefna. Efnagreining litarefna í flökum var í fylgni við magn étinna litarefna. Styrkur litarefna í fóðri umfram 50 mg/kg hafði ekki sýnileg áhrif í átt að rauðari holdlit í flökum.

Frekari upplýsingar um verkefnið veita þeir Jón Árnason hjá Matís og Ólafur Ingi Sigurgeirsson hjá Háskólanum á Hólum.

IS