Matís og Geitfjárræktarfélag Íslands, lýstu yfir vilja til aukins samstarfs, með aukna verðmætasköpun, vöruþróun og kynningu á geitaafurðum að markmiði fyrr í vikunni.
Matís og Geitfjárræktarfélagið telja að auknar rannsóknir í tengslum við ræktun geitarinnar, beiting upplýsinga- og líftækni og kynning á geitinni geti lagt grunninn að breyttum hugsunarhætti varðandi nýsköpun og tækniumbyltingar í landbúnaði á Íslandi, aukið framleiðslu heilnæmra og næringarríkra matvæla og um leið stuðlað að nýtingu matarafganga og aukahráefna sem í dag falla til sem úrgangur úr matvælaiðnaði, af veitingahúsum og heimilum.
Geitin hefur verið hluti af íslenska lífhagkerfinu frá landnámi og er ein af erfðaauðlindum þjóðarinnar. Mjólk, kjöt, skinn og ull geitarinnar hafa verið nýtt frá landnámi og ýmsar geitaafurðir, s.s. hafurseistu, geitalifur og geitahland hafa verið sett í samhengi við lækningamátt lífauðlinda.
Matís hefur á síðustu árum náð mjög góðum árangri í sókn í alþjóðlega rannsókna- og nýsköpunarsjóði, í samstarfi við íslensk og erlend fyrirtæki og stofnanir. Matís mun leitast við að kynna íslensku geitina og möguleika til nýsköpunar henni tengdri fyrir samstarfsaðilum sínum innanlands sem utan.
Á tímum áskorana á sviði fæðuöryggis, næringaröryggis og lýðheilsu og mikilla breytinga í lýðfræði um gjörvallan heim er mikilvægt að horfa með nýjum hætti á nýtingu erfðaauðlinda Íslendinga og menningararfs tengdum landbúnaði, möguleika til landbúnaðar í og nærri þéttbýli og nýtingu alþjóðlegrar tækni-og markaðsþekkingar til aukinnar verðmætasköpunar og bættar lýðheilsu. Notendamiðuð hönnun vara og þjónustu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi, eru grundvallaratriði í þessu samhengi.
Geitfjárræktarfélag Íslands var stofnað árið 1991. Félagið er hagsmunasamtök geitfjárræktenda á Íslandi, en alls eru ríflega 1000 vetrarfóðraðar geitur – hafrar og huðnur – á Íslandi. Hlutverk félagsins er að stuðla að verndun og ræktun íslenska geitfjárstofnsins og leita leiða til að bæta nýtingu og auka verðmæti geitaafurða.
Matís er öflugt þekkingarfyrirtæki sem sinnir fjölbreyttu rannsókna- þjónustu- og nýsköpunarstarfi í matvæla- og líftækniiðnaði, með aukna verðmætasköpun, bætt matvælaöryggi og bætta lýðheilsu að markmiði.