Þann 3. júlí undirrituðu Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís og Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands samstarfssamning milli Matís og Landbúnaðarháskóla Íslands um samstarf til að auka þekkingu og bæta þjónustu á sviði landbúnaðar og matvælaframleiðslu.
Samningurinn er um rannsóknasamstarf bæði í innlendum sem erlendum verkefnum og samstarf um tillögur og sérverkefni fyrir stjórnvöld á sviði landbúnaðar og matvæla.
Samstarf verður um uppbyggingu rannsóknainnviða og sérfræðiþekkingar þar sem við á. Sérfræðingar beggja munu tengjast betur í gegnum sameiginleg verkefni. Áherslusviðin þar sem samstarfið mun gagnast eru t.d. sauðfjárrækt, kynbætur (erfðafræði), ný prótein, tenging vinnslu og frumframleiðslu, nýting hliðarafurða, fóður, áburður, vöruþróun og samstarf við neytendur. Þá er stefnt að nýtingu sértækra rannsóknainnviða hvors annars til að skapa samlegðaráhrif í starfseminni og um leið að styrkja rekstrarforsendur innviðanna.
Gert er ráð fyrir vinnu ný-doktora, doktors- og eða meistaranema í völdum samstarfsverkefnum og skulu þeir að jafnaði vera undir leiðsögn sérfræðinga annars eða beggja aðila. Aðilar vinna að fjölgun doktorsnema á sviði landbúnaðar og matvæla.
Aðilar leggi áherslu á nýtingu á erlendum tengslanetum í Evrópu og Norðurlöndum, sbr. UNIgreen og annarra samstarfsaðila eftir því sem við á.